Kristjana og Svavar Knútur í Þorlákshöfn

Djassdívan Kristjana Stefáns og trúbadorinn angurværi Svavar Knútur munu skapa dásamlega notalegheitastemmningu á dúettatónleikum í Þorlákskirkju í Þorlákshöfn í dag kl. 16.

Kristjana og Svavar hafa síðan 2008 haft unun af því að syngja saman dúetta og komið fram víða um land við gríðargóðar undirtektir og sungið dægurlög og þjóðlög úr ýmsum áttum. Þau vinirnir gáfu út dúettaplötuna Glæður í haust og hefur hún hlotið frábærar móttökur.

Hér er tilvalin leið til að gera sér glaðan dag en ókeypis er fyrir börn í fylgd með foreldrum.

Kristjana Stefánsdóttir er án nokkurs efa drottning hins íslenska djassheims, en hefur þó einnig sungið hina ólíkustu stíla og komið víða við, til dæmis í leikhúsinu, þar sem hún stýrði tónlistinni í Galdrakarlinum í Oz og brá sér hlutverk trúðsins Bellu í Jesús Litla. Kristjana hefur gefið út fjölda hljómplatna, síðast blúsplötuna Better days blues, en af henni er einmitt lagið You left me Crying, sem þau Svavar flytja saman á Glæðum.

Svavar Knútur hefur undanfarin ár skipað sér í hóp fremstu söngvaskálda Íslands og vakið mikla athygli fyrir útgáfur sínar á sígildum íslenskum söng- og þjóðlögum á plötunni Ömmu. Einnig hafa frumsamin lög hans notið mikilla vinsælda, bæði með hljómsveitinni Hraun og á fyrstu sólóplötu Svavars, Kvöldvöku.

Tónleikarnir hefjast kl. 16:00 og miðasalan verður á staðnum. Miðaverð er aðeins kr. 2.000 og ókeypis fyrir krakka í fylgd með foreldrum.

Fyrri greinGlundroði komst áfram
Næsta greinSóttu slasaðan vélsleðamann