Kraftmikil ballaða frá Stuðlabandinu

Stuðlabandið.Ljósmynd/Aðsend

Stuðlabandið frá Selfossi, ein vinsælasta ball hljómsveit landsins, var að senda frá sér nýtt lag. Lagið heitir Ég veit og er komið inn á Spotify og allar helstu streymisveitur.

Samkvæmt höfundum lagsins er það óður til vonarinnar, þessa sterka afls sem býr innra með okkur öllum. Höfundar lagsins eru engir nýgræðingar i lagasmíðum en það eru þeir Ragnar Már Jónsson, Birgir Steinn Stefánsson og Einar Bárðarson en þetta er fyrsta lagið sem þeir semja saman.

„Við fórum að leita að lögum í vetur fyrir sumarið og leituðum til þeirra Birgis Steins og Einars. Þeir höfðu nýverið setið saman með Ragnari Má og samið nokkur lög saman.Við féllum strax fyrir þessu lagi og fórum í hljóðver með þeim í vor og kláruðum lagið,“ segir Magnús Kjartan Eyjólfsson, söngvari hljómsveitarinnar og brekkusöngvari Þjóðhátíðar í Eyjum.

„Þetta er kraftmikil ballaða og það er aldrei að vita nema þetta fái að hljóma fyrir fullri brekku á Þjóðhátíð í sumar. Vonin er sterkt afl, kemur okkur áfram í gegnum dimmustu dalina um leið og hún sleppir ekki af okkur takinu þó við stöndum í hæstu hæðum. Vonin er vor hugans,“ bætir Magnús við.

Lagið er hljóðblandað af Arnari Guðjónssyni og framleitt af þeim Ragnari Má og Birgi Stein.

Hljómsveitin Stuðlabandið var stofnuð árið 2004 og æfði fyrst um sinn á bænum Stuðlum í Ölfusi og dregur nafn sitt þaðan.

 

Fyrri greinDansa eins og vitleysingur úti á túni
Næsta greinHergeir og Roberta best á Selfossi