
Kótelettan Music Festival heldur upp á 15 ára afmæli sitt helgina 11.-12. júlí nk. með glæsilegri tónlistarveislu að venju. Í tilefni tímamótanna verður hátíðarsvæðið stækkað í samstarfi við nágranna Hvítahússins við Hrísmýri.
Yfir þrjátíu flytjendur stíga á stokk og halda gleðinni á lofti fram á nótt en heiðursgestur hátíðarinnar í ár er enginn annar en Björgvin Halldórsson. „Líkt og undanfarin ár hafa undirtektir verið vonum framar og stefnir allt í stórskemmtilega afmælishátíð,“ segir Einar Björnsson stofnandi og framkvæmdarstjóri Kótelettunnar.

Stærra hátíðarsvæði
„Í tilefni tímamótanna verður hátíðarsvæðið stækkað verulega með það að markmiði að skapa enn betri upplifun fyrir gesti með betri aðstöðu og meira plássi,“ segir Karen Lind Einarsdóttir, viðburðarstjóri Kótelettunnar. „Þessi framkvæmd er gerð í góðu samstarfi við nágranna okkar í Frumherja og Bílanaust og erum við þeim afar þakklátt fyrir þeirra aðkomu að hátíðinni, líkt og öðrum fyrirtækjum hér á svæðinu,“ segir Karen Lind og leggur áherslu á að ekki verður bætt við aðgöngumiðum heldur sé stækkunin til þess að auka þægindi, en ekki fjölga gestum.

Glæsilegt matartorg
Í fyrsta sinn verður matartorgið hluti af hátíðarsvæðinu. Auk matarvagna ætlar knattspyrnudeild Umf. Selfoss að taka þátt í gleðinni og vera með stórt matartjald á torginu. „Við erum ákaflega spennt fyrir verkefninu og við stefnum á að þetta verði ein af okkar stærstu fjáröflunum í framtíðinni. Við vonumst til þess að gestir hátíðarinnar verðir sólgnir í þær veitingar sem við munum bjóða upp á,“ segir Atli Marel Vokes, formaður knattspyrnudeildarinnar. Á matartorginu verða einnig borð og bekkir þar sem gestir geta sest niður, borðað og hvílt lúna dansfætur.
Hátíðarhaldarar hvetja alla til að leggja leið sína á Selfoss og njóta afmælisins – þar sem gleðin verður í loftinu og eitthvað í boði fyrir alla.