Kossinn í Kristskirkju í kvöld

Kammerkór Suðurlands heldur tónleika í Kristskirkju á Landakoti í kvöld kl. 21. Stjórnandi kórsins er Hilmar Örn Agnarsson.

Í apríl fagna kristnir menn á páskum sigri lífsins yfir dauðanum og apríl er tími birtu og gróanda eftir dimmu og drunga vetrarins. Þá elskar blessuð sólin allt – og allt með kossi vekur. Á tónleikunum Kossinum hugleiðir Kammerkór Suðurlands koss dauðans og koss lífsins.

Þungamiðja Kossins er fimmtán mínútna verk eftir Sir John Tavener: СВЯТЫЙ – Svyati, fyrir kór og selló. Sunginn er kirkjuslavneskur texti sem notaður er við flestar athafnir í rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni og hljómar við jarðarfarir þegar hinn látni er kvaddur með kossi.

Í tónverkinu kallast á kór og selló líkt og í grískum harmleik. Sellóið gegnir hlutverki prests sem kyssir líkama hins framliðna kveðjukossi og undirbýr sál hans til burtfarar úr þessum heimi. Kórinn ákallar Guð við kveðjukoss safnaðarins, meðan kistunni er lokað og hún borin úr kirkju í fylgd syrgjenda með logandi kerti.

Auk Svyati flytur Kammerkór Suðurlands þrjú önnur verk eftir Sir John Tavener á þessum tónleikunum. Kórinn og stjórnandinn hafa átt samstarf við Sir John frá árinu 2004 og hafa m.a. frumflutt nokkur verk þessa heimsþekkta breska tónhöfundar.

Hljómdiskur kórsins, Iero Oneiro (Heilagur draumur), með verkum Sir Johns, var tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2011 og var valinn hljómdiskur októbermánaðar 2010 af tímaritinu Gramophone. Sir John, sem hafði ekki samið tónlist í þrjú ár vegna veikinda, greindi nýlega frá því að hann hefði valið Kammerkór Suðurlands til að frumflytja nýsamið efni sitt.

Úr smiðju Arvos Pärts koma að þessu sinni fjórir kaflar úr Berliner Messe sem er meðal áhrifamestu listaverka hins eistneska meistara. Einnig verða flutt tvö önnur verk eftir hann á tónleikunum. Annað þeirra, Vater unser (Faðir vor) fyrir einsöngvara (Henríetta Ósk Gunnarsdóttir) og hörpu (Elísabet Waage), hefur sérstaka tengingu við Ísland og Borgarfjörð þar sem Pärt sendi verkið á jólakorti til listamannsins Páls Guðmundssonar á Húsafelli.

Auk verka Taveners og Pärts er á efnisskrá Kossins hið heillandi kórverk, Heimur svefnsins, eftir Völu Gestdóttur. Upphafsverk tónleikanna er Kom skapari, heilagi andi, fyrir kór og slagverk (Frank Aarnink), eftir Pál R. Pálsson. Kórinn frumflutti verkin eftir Völu og Pál á Myrkum músíkdögum í janúar síðastliðnum.

Kristín Lárusdóttir leikur á selló, Henríetta Ósk Gunnarsdóttir syngur einsöng, Elísabet Waage leikur á hörpu og Frank Arnink leikur á slagverk. Orgelleik annast Steingrímur Þórhallsson, organisti í Neskirkju. Kóreógrafía er í höndum Hörpu Arnardóttur leikkonu.

Fyrri greinHvetja neytendur til að sniðganga verslanir
Næsta greinVeiðiréttur í Soginu seldur á 181 milljón