Korter í þjóðhátíð!

Túbuleikarinn knái, Kristján Þór Ingvason, er einn þeirra sem þenja mun raddböndin á tónleikunum og hann ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur!

Það er sjaldnast lognmolla í starfi Lúðrasveitar Þorlákshafnar og sveitin hefur verið ötul í starfi þetta fyrsta almennilega starfsár eftir Covid og ýmis skemmtileg verkefni, stór sem smá, hefðbundin og óhefðbundin, verið á dagskrá.

Þann 16. júní nk., svo gott sem korteri fyrir þjóðhátíðardag Íslendinga, verður lúðrasveitin með léttleikandi sumartónleika þar sem útgangspunkturinn er að koma fólki í hressandi hátíðarskap. Efnisskráin ber þess keim þar sem hún er að stórum hluta byggð á íslenskum dægurlögum í gegnum tíðina, lögum sem Íslendingar elska að dilla sér með, syngja með og verða angurværir í nostalgíukasti og minningum. Þetta 35 manna band býr yfir miklu hæfileikafólki og munu 10 meðlimir stíga á stokk og hefja upp raust sína í hluta efniskráarinnar. Það eru þau Aðalbjörg Halldórsdóttir, Anna Margrét Káradóttir, Daði Þór Einarsson, Emilía Hugrún Lárusdóttir, Jón Óskar Guðlaugsson, Kristján Þór Ingvason,
Maríanna Jónsdóttir, Sigrún Birna Þórarinsdóttir, Sirrý Fjóla Þórarinsdóttir og Þuríður Róbertsdóttir Darling. Stjórnandi er Daði Þór Einarsson.

Tónleikarnir verða haldnir í Versölum í Ráðhúsi Ölfuss í Þorlákshöfn þann 16. júní sem fyrr segir og hefjast kl. 20:30. Áhorfendaform í sal verður nokkuð óhefðbundið fyrir lúðrasveitartónleika eða það sem lúðrasveitarmeðlimir kjósa að kalla “pokatónleika” þar sem einskonar kaffihúsastemning mun ráða ríkjum. Það þýðir sum sé að engin veitingasala verður á staðnum og fólk kemur bara með sitt með sér hvað svo sem það er!

Miðaverð er 3.500 kr og miðasala á tix.is.

Fyrri greinSkírnir dúxaði á Laugarvatni – margt er líkt með skyldum
Næsta greinFimm gullverðlaun og héraðsmet á Vormóti Fjölnis