Konungur ljónanna í Aratungu

Undanfarna mánuði hafa tæplega 40 nemendur Menntaskólans að Laugarvatni staðið að uppsetningu á söngleiknum Konungur ljónanna.

Stífar æfingar hafa verið síðan í janúarbyrjun en um leikstjórn sér Guðjón Sigvaldason. Hann hefur sett upp rúmlega hundrað og þrjátíu sýningar á ferli sínum vítt og breitt um landið, aðallega með áhugaleikhópum.

Um síðustu helgi var leikmyndin færð í Aratungu þar sem eftirmiðdagar þessarar viku eru nýttir í æfingar. Á fimmtudagskvöld er generalprufa og ætla Sólheimabúar að heiðra leikara með áhorfi sínu.

Næstkomandi föstudag, þann 24. mars kl. 20:00, er svo frumsýningin þar sem öllum nemendum og starfsmönnum skólans er boðið að koma og uppskeru æfingatímabilsins.

Að loknum þremur sýningum í Aratungu mun leikhópurinn ferðast með sýninguna og sýna á Þingborg, Seltjarnarnesi, Hvolsvelli og í Vík.