Í dag kom út platan Hjartans mál en á henni má finna tólf lög og texta eftir Hólmfríði Ósk Samúelsdóttur frá Hellu.
Í samtali við sunnlenska.is segir Hólmfríður að hún hafi mikla ástríðu fyrir tónlist og lagasmíðum. „Þetta er sannkölluð gjöf en getur líka verið bölvun ef maður ýtir henni frá eða tekur ekki alvarlega! Þetta er mitt hjartans mál og ég þurfti að koma þessu frá mér, út í kosmósið,“ segir Hólmfríður.
„Þegar lögin voru tilbúin vildi ég gera þetta fyrir börnin mín tvö. Þau voru bæði óvær ungabörn og við fjölskyldan áttum afar erfið fyrstu ár, svefnlega séð. Við notuðum tónlist og möntrur til að róa taugakerfið. Tónlistin var og er haldreipi okkar hjóna. Að heyra og hlusta, skapa og flytja hana.“
„Nú nokkrum árum síðar er komið að mér að gefa til baka. Ég þekki á eigin skinni hvað heilsan er viðkvæm þegar svefninn raskast. Ég vil því minna á mikilvægi hans og á „verkfærin“ sem við öll eigum og getum notað til að hlúa betur að okkur, hvíldinni og svefninum okkar.“
Hólmfríður segir að á plötunni deili hún boðskapnum og lögunum með öðrum fjölskyldum. „Það er einlæg von mín að lög og textar hjálpi, rói og gleðji. Það er reyndar mitt mat að börn á öllum aldri eigi að geta fundið tengingu við lög á plötunni og hún er því tileinkuð „barninu í okkur öllum“.“
Mikilvægt að hlúa að okkur sjálfum
Hólmfríður er menntaður kennari, með diplómagráðu í jákvæðri sálfræði og segir hún að það hafi óneitanlega áhrif á innihald textana. „Það er mitt hjartans mál að við lærum að nálgast hvert annað af virðingu frá fyrsta degi. Við fæðumst fordómalaus og erum svo ótrúlega góð í eðli okkar. Með því að hlúa að okkur sjálfum, forgangsraða því sem er okkur kærast og byggir okkur upp, sjá styrkleikana og hlúa vel að grunnþörfum eru sterkar líkur á að líðan batni og hamingja aukist. Þegar okkur líður vel þá lærum við vel og við komum betur fram við okkur sjálf og aðra. Þetta er svona spírall! Við viljum skapa jákvæðan spíral hjá börnunum okkar þegar kemur að tilfinningaþroska, hvíld og svefni.“
Hjartans mál er best lýst sem fjölskylduplötu. „Þó ég sé stundum að semja til barnanna þá er það til barnsins í okkur öllum. Við viljum einlægni og við viljum heilindi. Þau eru ríkjandi í öllum textum. Við syngjum mikið um ástina. Hér er ástin til barnsins í forgrunni og einnig syngur barnið til foreldris og minnir á hvað það er sem skiptir þau máli. Textarnir eru skýrir og einlægir, vandaðir og innihaldsríkir. Stundum segja þeir það sem við nú þegar vitum en gleymum kannski að segja upphátt og reglulega. Stundum vekja þeir spurningar og stundum gefa þeir svör.“
Miklar pælingar á bak við útsetningarnar
Á plötunni yrkir Hólmfríður um sín hjartans mál. „Það er kærleikurinn, hvíldin, góð tengsl við okkur sjálf og þá sem okkur þykir vænt um! Þetta er plata sem gott er að hlusta á á kvöldin, fyrir svefninn. En lögin virka líka í bílnum og í göngutúrnum. Sum lög breytast hreinlega við það að hækka í botn! Það eru miklar pælingar og mikil vinna að baki útsetningum, svo lögin virki bæði lágt stillt, beint úr síma, fyrir svefninn og svo hækkuð í botn í bílnum eða í heyrnartólum að degi til.“
„Platan er heildstætt verk. Tengsl og tilfinningar, kærleikur og mikilvægi hvíldarinnar eru í forgrunni. Þó lögin séu ólík, útsetningar fjölbreyttar og söngvarar margir þá er það með ráðum gert. Mér finnst flytjendur passa lögunum einstaklega vel. Það er alltaf eitthvað sem tengir lögin saman, texta- eða lagalega séð. Stundum leynist „hjartsláttur“ undir, píanóið er ríkjandi þó það sé ekki í öllum lögum og sama má segja um strengi og raddir. Öll platan er í rólegri kantinum en það eru aðeins örfá lög sem má kalla eiginlegar vögguvísur.“
Löng meðganga
Platan Hjartans mál er búin að vera lengi í vinnslu og upphaflega átti hún að koma út síðastliðið vor. Hólmfríður segir það vera mjög góða tilfinningu að hún sé loksins að koma út. „Maður fyllist auðmýkt og auðvitað smá stolti. Það koma margar hendur að svona verki og ég er gríðarlega þakklát öllum sem að þessu komu. Ég hefði ekki viljað hafa neina aðra með mér í þessu,“ segir Hólmfríður en fjölmargir tónlistarmenn komu að plötunni með einum eða öðrum hætti.
Hólmfríður segir að þó að það hafi tekið langan tíma að vinna plötuna þá hafi það samt gengið mjög vel. „Meðgangan var löng og stundum krefjandi. Lögin eru samin á löngu tímabil. Erindi og brú lagsins Ró samdi ég fyrir 20 árum! Lagið Ókomin ár varð til þegar systir mín eignaðist sitt fyrsta barn fyrir tæpum níu árum. Öll platan, lög og textar voru tilbúin fyrir ári síðan.“
Lærdómsríkt ferli
Æfingar fyrir plötuna hófust í janúar og tökurnar í febrúar. „Platan átti upphaflega að koma út í vor á sama tíma og við héldum tónleika með efni plötunnar. Tónleikarnir urðu að sýningu með öllu tilheyrandi og við færðum því plötuna. Sú ákvörðun var samt frábær því þá kom Halldór Gunnar meira inn í þessa vinnu með mér og við gátum kastað alls konar boltum og tíminn gerði okkur kleift að nostra betur við hvert lag. Allt hefur þetta verið mjög lærdómsríkt.“
„Ég þurfti að leita í sjóði og sækja styrki til að geta þetta og það finnst mér bara mjög erfitt. En allt fólkið sem hefur unnið með mér hefur verið afskaplega hvetjandi í minn garð og plötunnar. Alls koma tólf flytjendur að lögum plötunnar. Tíu fullorðnir og tvö börn. Allir eru líka að gera sitt, eru í vinnu og með fjölskyldur, búa langt í burtu, svo já, það segir sig í raun sjálft að þetta hefur verið frekar langt og tímafrekt ferli.“
Fyrsta lagið stuðningslag fyrir Breiðablik
Sem fyrr segir hefur Hólmfríður mikla ástríðu fyrir tónlist og lagasmíðum en hún samdi sitt fyrsta lag einungis tíu ára gömul. „Það var stuðningslag fyrir Breiðablik. Átján ára byrjaði ég að semja fyrir alvöru. Ég söng mikið sem barn og tók þátt í söngvakeppnum. Sjö ára sigraði ég stóra söngvakeppni og fékk ýmis skemmtileg tækifæri í kjölfarið. Svo fór ég bara alveg inn í skáp fram á fullorðins ár.“
„Það var svo þegar systir mín fékk að syngja lag eftir mig í Söngkeppni framhaldsskólanna að ég áttaði mig á að þetta væri það sem ég vildi gera meira af. Það var árið 2006. Lagið okkar Ó María kom út í kjölfar keppninnar og náði góðu flugi. Svo tók ég aðra pásu á meðan systir mín var úti í námi og spilaði fótbolta en ég samdi samt fullt á meðan.“
Alltaf að semja tónlist
Árið 2013 fóru þær systur á fullt í hljómsveitinni SamSam og gáfu út plötu í árið 2014. „Á plötunni átti ég fjórtán lög og texta. Svo tóku við barneignir. En þó ég hafi verið að syngja minna þá hef ég alltaf samið. Það er mitt stærsta áhugamál og mín geðrækt. Ég hef samið mikið frá árinu 2003 og á heilmikið af tilbúnu efni. En upptökur eru kostnaðarsamari en fólk almennt gerir sér grein fyrir. Svo ég geri þetta bara í skrefum. Ég hef þó lofað mér og mínu stuðningsfólki að taka ekki pásu neitt í bráð,“ segir Hólmfríður að lokum.
Á hjartansmal.is verður hægt að nálgast allar upplýsingar um plötuna, flytjendur og verkefni sem tengjast henni.