„Kom til mín á Hellisheiðinni“

Söngkonan Fríða Hansen í sumarskapi. Ljósmynd/Jóhann Þór Línberg Kristjánsson

Söngkonan Fríða Hansen frá Leirubakka í Landsveit sendi nýverið frá sér lagið Það var komið sumar.

„Lagið fæddist í fyrravor, tveimur dögum eftir sumardaginn fyrsta. Eins og ég man það þá var vorið í fyrra örlítið kaldara og harðara heldur en vorið núna – fastir bílar á Hellisheiði og víðar og það kom til mín einmitt þar; á Hellisheiðinni. Útvarpsmennirnir kepptust við að segja setninguna „en það VAR komið sumar!“ og þá kom lagið,“ segir Fríða í samtali við sunnlenska.is.

„Ég brunaði beint inn í Tónsmiðju til Stebba Þorleifs og fékk hann til að djamma eitthvað undir lagið á píanóið. Svo gerðist ekkert meira, þangað til ég hélt útgáfutónleika plötunnar minnar á Sviðinu í vor. Þá fékk ég strákana mína, þá Alexander Frey, Stefán Þorleifs, Árna Þór og Óskar Þormars, til að djamma lagið með mér í undirbúningi og svo á tónleikunum.“

Fríða segir að það hafi lukkast vel og verið svo skemmtilegt að hún hafi í kjölfarið sett sig í samband við Halldór Gunnar Pálsson Fjallabróður. „Halldór sló til að vinna lagið með mér. Hann er algjör töframaður í útsetningum og textagerð og ég fékk hann með mér til að gera textann eins skemmtilegan og raun ber vitni.“

Hljómar gríðarlega vel í Costco
Daginn eftir að lagið kom út birti Fríða myndband af sér á Instagram þar sem hún fékk lagið spilað í versluninni Costco. Aðspurð hvort það hafi verið gamall draumur hjá henni að heyra lagið spilað í Costco segir Fríða svo ekki vera.

„Ég var í Costco og það fyrsta sem tók á móti mér var geggjaður hljómur í græjunum en þegar maður labbar inn í verslunina byrjar maður á að fara í gegnum tæknideildina. Ég væflaðist svo um í búðinni í um það bil klukkutíma en var alltaf að færa mig aftur yfir í tæknideildina með það í huga að mögulega fengi ég að spila nýjasta mixið af laginu, til að heyra hvernig það hljómaði.“

„Þegar Orri, kærastinn minn, var búinn að borga og við komin út í bíl sagði ég að ég yrði bara að klára dæmið og hljóp aftur inn. Ég þurfti að leita lengi að starfsmanni en að lokum fann ég hann og hann leyfði mér að setja lagið af stað. Og það hljómaði gríðarlega vel! Þetta var annars enginn draumur, annar en sá að það er gaman að láta það hljóma sem víðast.“

Fríða vonast til að lagið taki flug í sumar. „Það er draumurinn. Lagið er nú þegar farið að hljóma á Rás 2 og á Suðurland FM og er búið að fá frábærar viðtökur á streymisveitunum.“

„Það er nóg til af tónlist, og vonandi kemst ég aftur inn í stúdíóið sem allra fyrst. Það eru nokkur skemmtileg lög sem bíða. Ég óska landsmönnum öllum gleðilegs sumars en vona að ef sumarið verður gott fái lagið samt að hljóma,“ segir Fríða kát að lokum.

Fyrri greinReiðmanni komið til bjargar
Næsta greinRazvan með fernu gegn Afríku