Björgvin Magnússon, viðskipta- og sölustjóri hjá Coca Cola, svaraði nokkrum áramótaspurningum fyrir sunnlenska.is.
Hvernig var árið 2025 hjá þér? Árið er búið að vera skemmtilegt og krefjandi á köflum en ég hef það fyrir vana að halda fókus á því skemmtilega en allt hitt er eitthvað til að læra af. Ég komst að því þegar ég skoðaði myndirnar mínar frá árinu (ég man ekki fyrir horn) að ég skulda útplöntun á nokkrum bökkum af trjám. Kolefnisjöfnun á fjórum frábærum utanlandsferðum fer fram með vorinu. Við skiptum um þak á L1 með aðstoð frá frábærum vinum, að eiga svona hóp að er verðmætara en orð frá lýst. En það voru ekki bara útgjöld, því það bætti í ríkidæmið þegar miðjublómið okkar gaf okkur barnabarn í byrjun apríl.

Hvað stóð upp úr á árinu? Afastrákurinn minn er klárlega hápunktur ársins og svo stórafmæli hjá tveimur af mínum bestu vinum, mamma áttræð í febrúar og Karlakór Selfoss 60 ára í byrjun mars. Það var frábært að komast í sumarfrí í febrúar, vera ekki í roki og rigningu á 17. júní í Köben, fara með tengdafjölskyldunni til Spánar í september og með mömmu og pabba til Skotlands í nóvember – og fá að fara allt þetta með henni Ingu minni.
Hvaða lag hlustaðir þú oftast á? Where Is My Mind? með Puddles Pity Party. Puddles er sormæddur trúður sem syngur eins og engill.
Hvað finnst þér ómissandi að gera alltaf á gamlársdag/kvöld? Dunda í eldhúsinu og hrista kokteila.
Hvað ætlarðu að gera um áramótin? Njóta þess að vera heima, borða góðan mat og láta fréttastofurnar rifja upp hvað gerðist á árinu, þó ekki væri nema til að skilja Skaupið betur (manstu, ég man ekki fyrir horn). Kannski fær maður sér einn Thule. Svo verður hluti af Norðlendingunum okkar hjá okkur. Svo koma öll börnin okkar í veislu á nýjársdag.
Hvað er í matinn á gamlárskvöld? Það verður humarsúpa og nautalund og örugglega einhver hellingur í viðbót.
Strengir þú eitthvað áramótaheit? Já, alltaf það sama, stefni á að hækka um einhverja centimetra, svona til að komast í kjörþyngd.
Hvernig leggst nýja árið í þig? 2026 verður, ef við leggjumst öll á eitt algjörlega frábært.

