Klarínettukórinn í Skálholti í dag

Í dag kl. 16 halda klarínettukór Tónlistarskólans í Reykjavík og klarínettukór Tónlistarskólans í Þórshöfn tónleika í Skálholtskirkju.

Flutt verða verk eftir J.S. Bach, F. Handel, J.Molter og W.A. Mozart. Einleikarar á tónleikunum eru Kristín Jóna Bragadóttir og Irena Áarberg Joensen.

Klarínettukór er kammerhljómsveit sem að samanstendur eingöngu af hljóðfærum klarínettu fjölskyldunnar, allt frá dýpsta hljóðfæri sinfóníuhljómsveitarinnar, kontrabassa klarínettu til hins bjarta sópran hljóðfæris es-klarínettu. Klarínettukór hefur breitt tónsvið og mjúkan alltumlykjandi viðarhljóm sem stundum hefur verið líkt við Orgel úr tré.

Tónleikarnir eru hluti af samstarfsverkefni Tónlistarskólans í Reykjavík og Tónlistarskóla Þórshafnar. Nú á vordögum hélt klarínettukór Tónlistarskólans í ferð til Færeyja þar sem að haldnir voru þrennir sameiginlegir tónleikar, meðal annars í Norðurlandahúsinu í Þórshöfn við góðar undirtektir.

Nú endurgjalda Færeyingar heimsóknina og verður þetta ein allsherjar klarínettu-hátíð þar sem kórarnir halda saman tvenna tónleika, í dag í Skálholti og á morgun kl. 15 í Norræna húsinu í Reykjavík.

Stjórnendur eru Freyja Gunnlaugsdóttir og Bjarni Berg.

Fyrri grein„Ánægður með góðan baráttu sigur“
Næsta greinFyrsti heimaleikurinn í dag