„Kjóllinn“ í borðstofu Hússins í sumar

„Kjóllinn“ sumarsýning Byggðasafns Árnesinga opnar í borðstofu Hússins á Eyrarbakka annan í hvítasunnu mánudaginn 5. júní.

Á sýningunni má sjá litríka kjóla úr safneign í samspili við kjóla frá safngestum og er öllum frjálst og velkomið að lána kjólinn sinn á sýninguna. Kjóllinn má vera gamall eða nýr. Úr safneign verða sýndir ólíkir kjólar en í forgrunni verða kjólar Helgu Guðjónsdóttur og Guðfinnu Hannesdóttur sem eru báðar fæddar snemma á 20. öld þegar nútímalegur lífsstíll var að hefja innreið sína.

Opnunin verður kl. 16:00 og aðeins síðar eða kl. 16:30 munu tvær fróðar konur Hildur Hákonardóttir, listamaður með meiru og Margrét Hallmundsdóttir, fornleifafræðingur koma fram. Þær ætla að taka létt hugarflug fyrir okkur aftur í tímann þegar kjóllinn þótti ógn við þjóðlegan klæðaburð. En sú var tíðin að eldri kynslóðin fann veruleg að því þegar „glysið“ við útlendan búning lokkaði ungar konur.

Allir eru velkomnir á opnum og léttar veitingar í boði. Safnið er opið alla daga frá 11-18 fram til 30. september eða eftir samkomulagi fyrir hópa.

Fyrri greinMenningaveislan hefst á laugardag
Næsta grein„Viðtökurnar hafa verið frábærar“