Kirkjukórar syngja í Árnesi

Kirkjukórar Ólafsvallakirkju og Stóra-Núpskirkju hyggja á ferðalag til Þýskalands 1.-5. júní nk.

Kórunum bauðst að syngja við messu í St. Andreaskirkjunni í Hamborg í Þýskalandi þann 3. júní nk. Einnig verður farið til Lübeck og sungið þar.

Þorbjörg Jóhannsdóttir organisti á Stóra-Núpi og stjórnandi kóranna átti hugmyndina að þessu ferðalagi og hefur gengið vasklega fram í að skipuleggja og drífa þetta áfram.

Kórarnir munu nú halda tvenna tónleika helgina 9.-11. mars.

Fyrri tónleikarnir verða í Árnesi í kvöld, föstudaginn 9. mars. kl. 20:30 en þeir seinni í Áskirkju í Reykjavík sunnudaginn 11. mars kl. 20:00. Efnisskráin er mjög fjölbreytt og skemmtileg. Íslensk og rússnesk lög, sænsku Glúntarnir sem tveir kórfélagar flytja og lög eftir Loft S. Loftsson frá Breiðanesi ásamt fleiri söngperlum.

Einnig munu nokkrir kórfélagar syngja einsöng, karlakór syngur og kvenna kvintett. Það mun ríkja gleði í Árnesi og hvetjum við fólk til að fjölmenna og njóta góðrar tónlistar og eiga með okkur skemmtilega stund.

Kórarnir syngja oft saman við athafnir og fóru á vordögum 2010 í afar velheppnaða ferð til Hafnar í Hornafirði með viðkomu á Kirkjubæjarklaustri og sungu þar við helgistund í kapellunni með sóknarpresti sínum og héldu svo tónleika í Hafnarkirkju.

Fyrri greinGámaþjónustan ætlar í skaðabótamál
Næsta greinTöfrasýning á þremur stöðum