Keramík – leiðsögn með Steinunni

Keramík er sýning sem Listasafn Árnesinga setur upp í tilefni af 35 ára afmæli Leirlistafélags Íslands og þar má sjá verk eftir 47 núverandi félagsmenn.

Verkin sýna fjölbreytileika fagsins í þeim 480 munum sem þar eru eftir reynslumikla frumkvöðla í sögu leirlistar hér á landi en einnig yngri hönnuði og listamenn sem vinna að viðgangi fagsins af fullum hug. Sjá má aukna áherslu á hönnun og fjöldaframleiðslu en þó með virðingu fyrir handverkinu og hugvitinu.

Sunnudaginn 3. apríl kl. 15:00 mun Steinunn Aldís Helgadóttir ganga um sýninguna og segja frá fjölbreyttum mótunaraðferðum, glerungum og brennslum ásamt að svara spurningum sem vakna.

Steinunn nam leirlist við háskólann í Stokkhólmi, hefur sinnt leirlist og kennslu um árabil og er nú búsett í Hveragerði. Árið 1996 stofnaði hún fyrirtækið Leirkrúsina og rak í 15 ár. Þar hélt hún fjölbreytt námskeið í leirmótun, rennslu, glerungagerð og brennsutækni auk þess að vinna að hönnun og framleiðslu á nytjahlutum og handgerðum leirflísum. Steinunn hefur líka starfað sem myndlistatakennari í grunn- og endurmenntun fyrir uppeldis- og kennarastéttir; við Kennaraháskóla Íslands, Fósturskólann, Námsflokka Reykjavíkur og í sveitarfélögum.

Sýningarnar Keramík og KvíKví munu standa til og með 1. maí. Safnið er opið fimmtudaga – sunnudaga kl. 12 – 18 og aðgangur ókeypis, líka í leiðsögnina.

Fyrri greinEnn eitt tapið gegn Fjölni
Næsta greinFjöldi listamanna boðar komu sína á Bakkann