Katrín ræðir við gesti

Katrín Elvarsdóttir ræðir við gesti um sýninguna Hringiðu í Listasafni Árnesinga í Hveragerði í dag kl. 15. Sýningin er á dagskrá Listahátíðar í Reykjavík.

Hringiða er margmiðlunarinnsetning þar sem hljóð og mynd hreyfa við hugmyndum um landamæri eða mörk, raunveruleg og ímynduð. Fræðilega fjallar hún um mörk sem eru afleiðing ímynda sem ekki eru sýnileg. Þannig getur sýningin hreyft við ómeðvituðum minningum og vísað í ástand milli þess segjanlega og hins ósegjanlega.

Um er að ræða samvinnu við finnskan sýningarstjóra, Mari Krappala og sex listamenn íslenska og erlenda. Frá Íslandi leggja listamennirnir Katrín Elvarsdóttir fram ljósmyndir og Lilja Birgisdóttir hljóðverk. Þrír finnskir ljósmyndarar, Eeva Hannula, Hertta Kiiski og Tiina Palmu hafa í sameiningu unnið tvö myndbönd fyrir sýninguna og frá eistneska listamanninum Marko Mäetamm kemur margslungið verk. Á sýningunni eru ný verk sem ekki hafa verið sýnd áður nema verk Mätamm sem tilnefnt var til virtra eistneskra verðlauna 2012, Köler verðlauna Samtímalistasafnsins í Tallin, en það er nú sett upp í nýju og stærra samhengi.

Katrín Elvarsdóttir mun segja frá ljósmyndaverkum sínum á sýningunni en jafnframt ræða um hugmyndafræði sýningarinnar og verk hinna í því samhengi. Það gefst líka gott tækifæri fyrir gesti til þess að spyrja og ræða sínar hugmyndir um sýninguna.

Katrín útskrifaðist með BFA-gráðu í ljósmyndun frá Art Instistute of Boston, USA 1993. Hún hefur sett upp nokkrar einkasýningar á Íslandi en líka átt verk á fjölmörgum samsýningum víða um heim. Verk hennar hafa verið tilnefnd til ýmissa virtra verðlauna eins og heiðursverðlauna Myndstefs 2007 og Deutsche Börse Photographic Prize 2009.

Sýningin Hringiða mun standa til 6. júlí. Listasafn Árnesinga er opið alla daga kl. 12 – 18, aðgangur ókeypis og allir velkomnir.