Kardemommubærinn í Heimalandi

Leikfélag Austur-Eyfellinga frumsýnir barna- og fjölskylduleikritið Fólk og ræningjar í Kardemommubæ laugardaginn 19. mars kl. 15:00 í Félagsheimilinu Heimalandi. Leikendur eru 17 en 30 – 40 manns koma að sýningunni.

Leikstjóri er Sigurður Hróarsson. Ljósameistari er Þorsteinn Sigurbergsson og tónlistarstjóri Ingibjörg Erlingsdóttir

Leikarar eru á öllum aldri frá 10 – 70 ára. Börnin sem taka þátt í leikritinu hafa öll verið í leiklistarkennslu hjá leikfélaginu undanfarin ár, sum allt að fjögur ár. Leiklistarkennslan fer fram allan veturinn einu sinni i viku.

Það má segja að allt sveitarfélagið taki þátt í þessari uppfærslu. Þáttakendur koma frá Skógum í austri og Hvolsvelli í vestri og alls staðar að þar á milli.

„Við höfum notið ákaflega mikillar velvildar í þessum undirbúningi, ekki síst frá sveitarfélaginu, sem hefur lánað okkur bíl til að koma leikurunum á æfingar og húsnæði okkur að kostnaðarlausu. Einnig hefur Stracta Hótel, gefið allt efni í sviðsmynd. Nánast allir sem við leitum til með smíði, saumaskap, leikumuni og annað eru boðnir og búnir til að hjálpa. Þetta jákvæða viðhorf til þessa starfs er ómetanlegt og þakkar vert,“ segir í tilkynningu frá félaginu.

Fyrri greinFlóahlaupið verður 2. apríl
Næsta greinUngu fólki stórlega misboðið yfir áhugaleysi stjórnmálamanna