Kammerkór Suðurlands „poppar upp“ á laugardag

Kammerkór Suðurlands. Ljósmynd/Aðsend

Kammerkór Suðurlands, undir stjórn Hilmars Arnar Agnarssonar, flytur svokallaða ör-tónleika (pop-up tónleika) víða um Suðurland á morgun, laugardaginn 16. nóvember.

Samvinna við íslensk tónskáld hefur ætíð verið ein af aðaláherslum Kammerórs Suðurlands og í tilefni 20 ára starfsafmælis kórsins hafa margir af tónskáldum, meðlimum og velunnurum hans, gefið kórnum „ör-lag”.

Ör-laga dagskrá Kammerkórs Suðurlands var frumflutt á Sönghátíð í Hafnarborg í júní síðastliðinn en verður nú flutt á svokölluðum ör-tónleikum víða á Suðurlandi og geta Sunnlendingar átt von á ör-tónleikum á hinum ólíklegustu stöðum á Suðurlandi á morgun.

Dagurinn er þó með þrjá fasta punkta, Hellarnir við Ægisíðu kl. 11:30, Bókakaffið á Selfossi kl. 13:30 og Listasafn Árnesinga kl. 15:30. Þar frumflytur Kammerkórinn einnig nýjan gjörning eftir Elínu Gunnlaugsdóttur.

Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.

Fyrri greinÓskar fer inn í sitt tuttugasta starfsár
Næsta greinHulda keppti á sínu fyrsta heimsmeistaramóti