Jórukórinn syngur Disneylög

Jórukórinn. Ljósmynd/Aðsend

Vortónleikar Jórukórsins þetta árið verða með aðeins óhefðbundnu sniði eða þematónleikar þar sem kórinn mun syngja lög úr velþekktum Disneymyndum.

Í ár verða tónleikarnir haldnir í Félagslundi í Flóahreppi og eru þeir fyrri föstudagskvöldið 3. maí klukkan 20:00 og þeir síðari daginn eftir, laugardaginn 4. maí klukkan 15:00 og eru börn og unglingar boðin sérstaklega velkomin á þá tónleika.

Gísli Jóhann Grétarsson stjórnar kórnum og um undirleik sjá Hörður Alexander Eggertsson á píanó, Sigurgeir Skafti Flosason á bassa, Skúli Gíslason á trommur og meðlimir úr strengjasveit Tónlistarskóla Árnesinga.

Á þessum vortónleikum fá kórkonur að syngja mörg af sínum uppáhalds lögum úr teiknimyndum Disney, en þau eru eftir ýmsa höfunda og má þar nefna fræga poppara eins og Elton John og Phil Collins. Mörg þessara laga eru löngu orðin sígild, hver kannast ekki við Hakuna Matata úr Lion King, eða Let it go úr Frozen. Lögin eru ýmist sungin á ensku eða íslensku en öll eru þau í útsetningu Gísla Jóhanns Grétarssonar stjórnanda Jórukórsins. Það er gaman hve margar kórkonur fá að spreyta sig í einsöng og kvartett á vortónleikunum og bregða sér í hlutverk sígildra teiknimyndahetja.

Líkt og undanfarin ár gefur kórinn út efnisskrá tónleikanna og dreifir í hús á Selfossi og nágrenni. Þar má einnig sjá Jórufréttir, þar sem stiklað á stóru í starfi kórsins á liðnum vetri. Við þökkum þeim fjölmörgu styrktaraðilum sem gera okkur þetta kleift, með birtingu auglýsinga. Ennfremur þökkum við Tónlistarskóla Árnesinga fyrir afnot af húsnæði og Fimleikadeild UMFS fyrir ýmsa skemmtilega leikmuni á tónleikunum.

Miðaverði er stillt í hóf, 2.500 kr í forsölu hjá kórkonum, 3.000 kr við innganginn, fyrir börn yngri en 14 ára kostar 500 kr í forsölu og 1.000 kr við innganginn. Á tónleikunum verður hægt að kaupa kaffi, safa, kókómjólk og popp og verður verði stillt í hóf þar líka.

Kórkonur vonast til að sjá sem allra, allra flesta á tónleikunum og að gestir njóti tónlistarinnar með þeim.

Fyrri greinBergheimar til fyrirmyndar í umhverfismálum
Næsta greinKröfuganga og ræðuhöld á Selfossi