Jónsmessuhátíðin um næstu helgi

Ljósmynd/Aðsend

Jónsmessuhátíðin á Eyrarbakka verður haldin um næstu helgi, 24.-25. júní. Eins og venjulega verður fjölbreytt fjölskyldudagskrá í boði.

Dagskráin hefst á föstudaginn kl. 16:00 með hjólreiðaskoðun Slysavarnadeildarinnar Bjargar og lögreglunnar við Garðstún og í beinu framhaldi verður hinn árlegi Jónsmessubolti og að þessu sinni verður keppt í kíló.

Markmið hátíðarinnar hefur alltaf verið að gleðja unga sem aldna án þess að fólk þurfi sífellt að taka upp veskið. Fjölskyldudagskráin verður við Garðstún og söfnin á Eyrarbakka verða opin á laugardaginn frá kl. 12-15. Stemningin nær síðan hámarki þegar Sprite Zero Klan tryllir lýðinn í garðinum við Húsið.

Ljósmynd/Aðsend

Brennan á fjölskylduvænum tíma
Vegna samkomutakmarkana í fyrra var tímasetningu brennunar flýtt til kl. 20:00 og skapaðist skemmtileg fjölskyldustemning í kringum brennuna í fjörunni. Svo mikil var ánægja fjölskyldufólks með breytinguna að ákveðið var að halda í tímasetninguna og mun því brennan hefjast kl. 20:15 á laugardagskvöldinu.

Brennustjóri hátíðarinnar í ár er engin annar en eldgleypirinn Andri Geir Jónsson og mun sjá til þess að ungir sem aldnir muni skemmta sér konunglega á brennunni. Trúbadorinn Ármann Magnús Ármannsson mun halda uppi stuðinu þar til síðustu logarnir slokkna og mannskapurinn heldur heim á leið eða á Rauðahúsið fram á rauða nótt.

Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinBragðdauft gegn botnliðinu
Næsta greinGjaldfrjáls klukkutími í leikskólum Hveragerðisbæjar