Jónsmessuhátíðin á Eyrarbakka um helgina

Árleg Jónsmessuhátíð á Eyrarbakka verður haldin í sextánda sinn laugardaginn 20. júní næstkomandi og verður dagskrá hátíðarinnar fjölbreytt að vanda.

Unga kynslóðin byrjar daginn snemma við Sjóminjasafnið og þangað kemur Brúðubíllinn í heimsókn. Björgunarsveitin býður upp á eitthvað skemmtilegt til að spreyta sig á og svo verður kannski eitthvað gott í gogginn.

Nokkrir íbúar og húsráðendur bjóða í heimsókn yfir daginn og Ása Magnea, nýútskrifaður ljósmyndari, verður með útiljósmyndasýningu við húsið Garðshorn í Garðbæjarhverfi.

Frá vinabænum Þorlákshöfn kemur sönghópurinn Tónar og trix og syngur nokkur lög af nýju plötunni sinni í Eyrarbakkakirkju undir stjórn Ásu Berglindar Hjálmarsdóttur.

Valgeir Guðjónsson stuðmaður verður með tónleika í Bakkastofu og Linda Ásdísardóttir kynnir sýningu Byggðasafns Árnesinga í Húsinu Konur, skúr og karl sem fjallar um 19. aldar ljósmyndara á Stokkseyri.

Þá fer fram þriðja Íslandsmeistaramótið í koddaslag á bryggjunni í eftirmiðdaginn – allir velkomnir að fylgjast með, en þó verður miðað við 20 ár aldurstakmark í slagnum sjálfum.

Að venju verður svo samsöngur undir stjórn Heimis Guðmundssonar í Húsinu að kvöldi dags áður en hátíðargestir halda í fjöruna vestan við Eyrarbakkaþorp, þar sem kveikt verður í sólstöðubrennu og sungið og trallað undir leiðsögn Bakkabandsins langt fram eftir kvöldi. Hátíðarávarp flytur Ingibjörg Vigfúsdóttir.

Hátíðin endar svo með Jónsmessuskemmtun í Hótel Bakka í frystihúsinu – þar er aldurstakmark 18 ára.

Veitingahús, söfn og verslanir á Eyrarbakka verða með opið allan daginn og þar verða Jónsmessuhátíðartilboð á vörum og þjónustu.

Nánari upplýsingar um dagskrá og tímasetningar eru á vefnum www.eyrarbakki.is og á fésbókarsíðu hátíðarinnar.

Fyrri greinVeiðivötn opna samkvæmt áætlun þrátt fyrir fannfergi
Næsta greinSúrsætt jafntefli í Mosfellsbæ