Jónsmessuhátíð í Hveragerði

Í dag verður Jónsmessuhátíð í lystigarðinum við Fossflöt á vegum Norræna félagsins í Hveragerði. Þar á að skreyta miðsumarstöng, syngja, fara í leiki, steikja brauð yfir opnum eldi og fleira sem öll fjölskyldan getur haft gaman af.

Allir sjálfboðaliðar á hátíðinni verða í bolum með teikningu eftir Gunnar K. Gunnarsson í 8. bekk, en hann sigraði í teiknisamkeppni sem félagið stóð fyrir í Grunnskólanum í Hveragerði. Gunnar verður verðlaunaður á hátíðinni.

Leikskólabörn í Hveragerði hafa æft Sól, sól skín á mig, Litla flugan, Óskasteinar, Hann Tumi fer á fætur og Vorvindar glaðir. Textarnir eru aðgengilegir á facebooksíðu Norræna félagsins í Hveragerði og um að gera að taka undir með börnunum.

Kl. 17 hefst aðalfundur félagsins við eldstæðið í lystigarðinum, samhliða Jónsmessuhátíðinni.

Fyrri greinNýtt skip í siglingum milli lands og Eyja
Næsta greinLay Low spilar á Sólheimum