Jóns Arasonar minnst í Skálholti í kvöld

Ljósmynd/Skálholt

Í kvöld, þriðjudagskvöld kl. 20:00, verður boðið upp á menningardagskrá í Skálholtskirkju sem helguð er herra Jóni Arasyni í Skálholti, sem tekinn var af lífi ásamt sonum sínum þennan dag, 7. nóvember árið 1550.

Þessi stund hefur verið haldin árlega undanfarin fimmtán ár. Í ár verður lögð mikil áhersla á fallega tónlist og verður flutt Lacrimosa úr Sálumessu Mozarts, Kvöldbænir eftir Þorkel Sigurbjörnsson við texta Hallgríms Péturssonar, 1. erindi úr Ljómi eftir Jón Arason sjálfan við lag eftir Jón Bjarnason, dómorganista í Skálholti, svo eitthvað sé nefnt.

Skálholtskórinn syngur og stjórnandi er Jón Bjarnason. Guðjón Halldór Óskarsson organisti leikur með kórnum á orgel. Sigríður Ósk Kristjánsdóttir mezzosópran syngur einsöng og Jóhann I. Stefánsson leikur á trompet. Sr. Kristján Björnsson leiðir stundina og les úr ljóðmælum herra Jóns Arasonar. Sr. Axel Árnason Njarðvík sóknarprestur í Skálholtsprestakalli leiðir bæn.

Eftir dagskrá í kirkjunni verður gengið eftir nýrri Þorláksleið að minnisvarðanum um Jón Arason með blys til að leggja kertaljós að fótstallinum. Að því loknu verður boðið uppá heitt súkkulaði á veitingastaðnum Hvönn í Skálholtsskóla, sem er reyndar opinn með veitingar allan daginn.

Enginn aðgangseyrir er á þennan viðburð og eru allir velkomnir. Fólk er hvatt til að klæða sig eftir veðri.

Fyrri greinHamar tapaði nýliðaslagnum
Næsta greinMetstyrkur Lindex í baráttunni gegn krabbameini hjá konum