Jónas á Merkigili í kvöld

Þriðju tónleikarnir í hausttónleikaröðinni á Merkigili á Eyrarbakka verða í kvöld kl. 20. Þar leikur Jónas Sigurðsson ásamt gestgjöfunum Uni og Jóni Tryggva.

Söngvaskáldin Uni og Jón Tryggvi hafa undanfarnar vikur boðið uppá tónleika að heimili sínu, Merkigili á Eyrarbakka. Þau hafa fengið til liðs við sig hina og þessa listamenn og hafa tónleikarnir gengið vonum framar.

Jónas Sigurðsson þarf ekki að kynna fyrir Sunnlendingum. Þessi fyrrum Sólstrandargæji úr Þorlákshöfn stefnir nú á útgáfu annarrar sólóplötu sinnar, Allt er eitthvað, sem kemur út í höfuðborg Íslands þann 10. október nk.

Jónas og hljómsveit hans Ritvélar framtíðarinnar hafa verið að gera það gott á öldum ljósvakans með laginu „Hamingjan er hér” og útgáfutónleikar þeirra fara fram þann 12. október í Tjarnarbíói og eru því tónleikarnir í kvöld forskot á sæluna!

Notalegir, hressir og skemmtilegir, órafmagnaðir tónleikar við hafið! Tónleikarnir hefjast kl 20. Frítt inn en frjáls framlög vel þegin.

Fyrri greinHátíðarmessa í Þorlákshöfn
Næsta greinTekur yfir rekstur Kjötbankans