Jónas á lag ársins

Jónas Sigurðsson fékk verðlaun fyrir lag ársins 2010 þegar Íslensku tónlistarverðlaunin voru afhent í Þjóðleikhúsinu í kvöld.

Það kom kannski fáum á óvart að lagið Hamingjan er hér af plötunni Allt er eitthvað var valið lag ársins. Jónas var hamingjusamur þegar hann tók við verðlaununum og sagði í þakkarræðunni að hamingjan væri svo mikil í laginu að hann ætlaði ekki að þora að gefa það út.

Auk þessa var Jónas tilnefndur sem textahöfundur ársins og fyrir plötu ársins í flokki popp- og rokktónlistar. Jónas steig á svið Þjóðleikhússins ásamt hljómsveit sinni, Ritvélum framtíðarinnar, og flutti frábæra útgáfu af lagi ársins.

Kammerkór Suðurlands var einnig tilnefndur fyrir plötuna Heilagur draumur sem plata ársins í flokknum sígild- og samtímatónlist. Kórinn kom sömuleiðis fram á hátíðinni og flutti verkið Lambið af plötunni.

Fyrri greinBið eftir snjóbíl loks á enda
Næsta greinTelja umræðuna um einelti þarfa