Jón Ingi opnar sýningu í dag

Jón Ingi Sigurmundsson opnar sýningu í Gallerí Listaseli í Brúarstræti 1 í miðbæ Selfoss í dag kl. 15. Sýningin stendur út maímánuð.

Jón Ingi er fæddur og uppalinn á Eyrarbakka og starfaði áður við kennslu og stjórnunarstörf, tónlistarkennslu og kórstjórn. Hann stjórnaði Kór Gagnfræðaskólans á Selfossi 20 ár og Kór Fjölbrautaskóla Suðurlands í 17 ár.

Fyrsti myndlistarkennari hans var Jóhann Briem en hefur síðan notið kennslu hjá Ron Ranson vatnslitamálara í Englandi, Ulrikk Hoff í Kaupmannahöfn og Kieth Hornblower. Jón Ingi hefur haldið yfir 50 málverkasýningar víðsvegar um landið og auk þess í Horsens í Danmörku og tekið þátt í samsýningum.

Jón Ingi er félagi í Myndlistarfélagi Árnesinga, Vatnslitafélagi Íslands og Norræna vatnslitafélaginu. Hann hefur verið heiðraður af tímaritinu International Artist og fékk menningarviðurkenningu Árborgar árið 2011.

Galleríið er opið frá kl. 12 til 18 þriðjudaga til laugardags en frá kl 12 til 16 á sunnudögum.

Fyrri greinSelfyssingar til fyrirmyndar
Næsta greinÞrír bikarmeistaratitlar á Selfoss