Jólatónlistarveisla í notalegu umhverfi

Þórir Geir, Sædís Lind, Anna María og Dagný Sif lofa frábærri stemningu í Reykjadalsskála. Ljósmynd/Aðsend

Söngvararnir Þórir Geir Guðmundsson, Anna María Sigurbjörnsdóttir, Sædís Lind Másdóttir og Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir koma fram á tvennum jólatónleikum í Reykjadalsskála í Hveragerði um næstu helgi ásamt einvala liði hljóðfæraleikara.

Til stóð að halda eina tónleika laugardaginn 16. desember en miðarnir á þá seldust hratt upp og því var ákveðið að halda aukatónleika sunnudaginn 17. desember og er miðasala í fullum gangi á tix.is.

Söngvararnir fjórir þekkjast vel og hafa sungið öll saman í mörg ár; Dagný Sif og Anna María eru systur og hafa sungið saman alla tíð og Anna María og Sædís voru saman í bekk í grunnskóla og stigu þar saman sín fyrstu skref með þátttöku í Samfés. Dagný og Þórir Geir gáfu saman út jólalagið River árið 2020 og fjórmenningarnir gáfu svo saman út nýtt jólalag í ár, Jól hjá okkur tveim.

Vildu lífga upp á menningarlífið
Dagný Sif segir að það sé mikil tilhlökkun hjá hópnum fyrir tónleikum helgarinnar enda séu þau öll mikil jólabörn.

„Okkur hefur langað undanfarin ár að lífga upp á jólastemninguna og menningarlífið í Hveragerði í aðdraganda jólanna og ákváðum því að skella í þessa tónleika í dásamlega umhverfinu uppi í Reykjadal. Við höfum verið að syngja saman í mörg ár og eigum það öll sameiginlegt að hafa stundað nám í söng við Complete Vocal Institute í Kaupmannahöfn,“ segir Dagný sem fór þangað árið 2012 og í framhaldinu voru Þórir Geir, Anna María og Sædís á söngnámskeiðum hjá henni áður en þau skelltu sér sjálf í sama nám.

Jólakakó og arineldur
Efnisskrá tónleikanna er fjölbreytt og það eru engir aukvisar sem skipa hljómsveitina.

„Já, við höfum fengið með okkur frábært fólk í verkefnið en þeir sem verða með okkur á sviðinu eru Jón Ingimundarson á píanó, Arnar Pétursson úr Mammút á gítar, Matthías Hlífar Mogensen úr Auðn á bassa og Dagur Atlason á trommur. Við lofum algjörri jólatónlistarveislu í fallegu og afskaplega jólalegu umhverfi með fjöllin í Reykjadal allt um kring, arineld, jólakakó og notalegheit og svo að sjálfsögðu verða tilboð á barnum og mikil gleði. Lögin sem verða flutt eru fjölbreytt blanda af íslenskum og erlendum jólaperlum meðal annars úr popp-, rokk- og djassheiminum með vænum dassi af skemmtilegheitum og miklu fjöri,“ segir Dagný.

Sem fyrr segir er uppselt á tónleikana á laugardag og þar er 18 ára aldurstakmark. Á sunnudeginum er hins vegar opið fyrir alla aldurshópa og þar fer hver að verða síðastur að næla sér í miða.

„Það er tilvalið að taka með sér unglinginn eða bara alla fjölskylduna á sunnudeginum og njóta gæðastunda saman. Húsið opnar kl. 20:00 á laugardaginn og kl. 19 á sunnudaginn og við hlökkum mikið til að syngja inn jólin með gestum okkar. Undirbúningurinn hefur verið mjög skemmtilegur og við getum ekki beðið eftir að sýna afraksturinn,“ segir Dagný að lokum.

Fyrri greinTillögurnar stuðli að sátt um uppbyggingu vindorkunýtingar
Næsta greinN1 svarar ákalli um 98 oktana bensín