Jólatónleikar Jórukórsins í kvöld

Jórur á æfingu og Unnur Birna situr við flygilinn. Ljósmynd/Aðsend

Árlegir jólatónleikar Jórukórsins verða haldnir í Hveragerðiskirkju í kvöld klukkan 20:00.

„Við ætluðum að halda jólatónleika í fyrra og vorum byrjaðar að æfa fyrir þá síðasta haust en við enduðum á að aflýsa þeim vegna covid. Við byrjuðum svo aftur að æfa á fullu í haust og höfum verið að stefna á þessa tónleika síðan í september,“ segir Rebekka Kristinsdóttir, kórfélagi, í samtali við sunnlenska.is.

Jórukórinn var stofnaður 1997 og er því á 25. starfsári sínu núna. Kórinn inniheldur aðeins konur og hefur verið stór partur af menningarlífi Sunnlendinga síðan hann var stofnaður. Rebekka segir að það hafi verið örlítið þungt að trekkja kórinn aftur í gang eftir covid og eru þær því óvenju fáar núna, eða 23 konur á aldrinum 25-56 ára.

Rebekka lofar skemmtilegum tónleikum með kórnum í kvöld. „Þetta verða aðallega jólalög en þó leynist einstaka lag sem ekki tengist jólunum beint, eins og til dæmis eitt lag eftir Pál Óskar. Einnig erum við með lag sem kallast Blackbird og er ekki jólalag upprunalega en fyrrverandi kórkona henti í hnittinn jólatexta við lagið sem er mjög skemmtilegur!“

Stjórnandi Jórukórsins er Hvergerðingurinn og tónlistarkonan Unnur Birna Bassadóttir. „Hún er frábærlega hæfileikarík og litríkur og skemmtilegur karakter,“ segir Rebekka og bætir því við að undirleikarinn Sigurður Helgi Oddsson sé ekki síður skemmtilegur.

Eins og með flesta kórtónleika þá eru alltaf einhverjir sem taka einsöng með kórnum. „Að þessu sinni koma allir einsöngvarar úr röðum kórsins og ætla tvær kórkonur, þær Sigrún Vala Vilmundardóttir og Sabine Bernholt að syngja einsöng og aðrar tvær taka dúett, þær Valgerður Jónsdóttir og Elín Sigurðardóttir.“

„Okkur langar að benda á að við viljum endilega fá fleiri konur í kórinn og það verða opnar æfingar í byrjun janúar, þar sem vel er tekið á móti nýjum kórkonum. Það eru engar raddprufur, þannig að þetta snýst bara um að mæta og hafa gaman saman. Annars vonum við bara að sjá sem flesta í Hveragerðiskirkju á tónleikunum í kvöld klukkan átta. Miðar eru seldir í forsölu hjá kórkonum og á hárgreiðslustofunni Lobbýinu. En annars verður hægt að kaupa miða við innganginn,“ segir Rebekka að lokum.

Jórukórinn á góðri stund með stjórnandann Unni Birnu fremsta í flokki. Ljósmynd/Unnur Birna
Fyrri greinHeimgreiðslur teknar upp í Hrunamannahreppi
Næsta greinGuðmundur verðlaunaður fyrir óeigingjörn störf