Jólatónleikar í Skálholti og á Selfossi

Karlakór Selfoss. Ljósmynd/Stúdíó Stund

Karlakór Selfoss heldur sína árlegu jólatónleika í Skálholti mánudaginn 8. desember og í Selfosskirkju þriðjudaginn 16. desember.

Jólatónleikar Karlakórs Selfoss eru ómissandi viðburður í jólaundirbúningi margra Sunnlendinga, efnisskráin er fjölbreytt og má þar finna ýmiskonar léttmeti ásamt hátíðlegum söng. Eitthvað sem kemur öllum í jólaskapið.

Sérstakur gestur á báðum tónleikunum er Berglind Magnúsdóttir söngkona en Berglind og kórinn eiga lag í Jólalagasamkeppni Rásar 2, Jólagjöfin í ár! eftir Björgvin Þ. Valdimarsson. Það verður frumflutt í lifandi flutningi á tónleikunum í Skálholti.

Stjórnandi Karlakórs Selfoss er Skarphéðinn Þór Hjartarson og hefur hann útsett mörg þeirra laga sem á efnisskránni eru. Píanóleikari kórsins er Jón Bjarnason.

Tónleikarnir í Skálholti hefjast klukkan 20 en tónleikarnir á Selfossi klukkan 20:30. Aðgangur er ókeypis en tekið er á móti frjálsum framlögum sem renna óskipt í Sjóðinn góða. Posi verður á staðnum á báðum tónleikunum.

Fyrri greinGuðrún Jóna aðstoðar Glenn
Næsta greinKatrín nýr markaðsstjóri Nettó og Kjörbúðanna