Jólasveinar líta við í LÁ

Í dag kl. 17 til 18 er efnt til jóladagskrár fyrir börn á öllum aldri í Listasafni Árnesinga í Hveragerði í tengslum við litla jólasýningu sem unnin er út frá kvæðakverinu Jólin koma og búið er að setja upp í safninu.

Stekkjarstaur kom til byggða í nótt og er líklegt að hann komi við, einkum ef hann fréttir af því að þar geti hann skoðað teikningar af foreldrum sínum, sjálfum sér og átt spjall við góða gesti.

Anna Jórunn Stefánsdóttir syngur jólasveinavísur Jóhannesar úr Kötlum við lag tengdamóður sinnar, Ingunnar Bjarnadóttur og ungur afkomandi þeirra, Pétur Nói Stefánsson, bregður á leik. Hörður Friðþjófsson leikur undir á gítar.

Fjallað verður um skáldið Jóhannes úr Kötlum, teiknarann Tryggva Magnússon og tónskáldið Ingunni Bjarnadóttur. Í fjöldasöng verða önnur ljóð úr kverinu sungin svo sem Jólin koma sem hefjast á ljóðlínunni „Bráðum koma blessuð jólin“. Boðið er upp á heitt súkkulaði og piparkökur.

Jóhannes notaði að mestu sömu nöfn á jólasveinana og séra Páll Jónsson á Myrká sjötíu árum fyrr í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar. Með jólasveinavísunum má segja að Jóhannes hafi sett í fastar skorður nöfn jólasveinanna, fjölda þeirra og í hvaða röð þeir halda til byggða. Tryggvi færði með teikningum sínum í kverinu, íslensku jólasveinana nær börnunum og smám saman varð til málamiðlun á milli íslensku tröllanna og ameríska jólasveinsins.

Jólasveinarnir fengu að vera þrettán talsins og heita sínum gömlu nöfnum, sérkennum og smáhrekkjum, þó þeir hafi farið að klæðast fötum hins ameríska og gefa gjafir. Ekki er vitað hvenær Ingunn samdi lagið við jólasveinavísur Jóhannesar, en það er ekki yngra en frá árinu 1947. Ári áður hafði Ingunn flust til Hveragerðis og þá bjó þar líka Jóhannes úr Kötlum.

Á morgun, föstudaginn 13. desember og um helgina 14. og 15. desember má líka búast við jólasveinum hvers dags í heimsókn upp úr kl. 17. Þá munu þeir Giljagaur, Stúfur og Þvörusleikir gantast við börn og foreldra þeirra á meðan þau eiga samverustund í listasmiðju safnsins.

Þetta eru jafnframt síðustu dagarnir sem safnið er opið fyrir jól en það verður opnað á ný 15. janúar 2014.

Fyrri greinÍþróttahúsið á Flúðum í fulla stærð
Næsta greinStórskáld og landskjálftar í Bókakaffinu