Jólastjörnur á sviðinu í FSu

Kór Fjölbrautaskóla Suðurlands ásamt einsöngvaranum Pelle Damby Carøe. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Kór Fjölbrautaskóla Suðurlands hefur verið endurvakinn og hann hélt sína fyrstu tónleika um árabil í hátíðarsal skólans í kvöld – þar sem bekkurinn var þétt setinn.

Í fyrsta lagi tónleikanna steig lítill hluti kórsins á svið og hóf upp raust sína, tíu stúlkur og einn piltur en síðan gengu syngjandi í salinn 23 söngvarar til viðbótar. Skemmtileg byrjun en Ágústa Ragnarsdóttir, kynnir kvöldsins, útskýrði að í upphafi haustannarinnar hafi þessir ellefu nemendur mætt á fyrstu æfingu kórsins.

Nýneminn Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir stóð fyrir því í haust að kórinn væri endurvakinn og síðan hefur fjölgað jafnt og þétt í hópnum. Í kvöld var kórinn skipaður 34 nemendum, undir styrkri stjórn Stefáns Þorleifssonar, sem nær greinilega að laða það besta fram hjá söngvurunum ungu.

Söngskráin í kvöld var bæði létt og hátíðleg, íslensk og erlend lög, við undirleik hljómsveitar og fjöldi einsöngvara úr röðum kórfélaga steig á stokk, ásamt dönskukennaranum Pelle Damby Carøe. Einn af hápunktum tónleikanna var þegar Pelle og kórinn fluttu Lennon lagið Happy Xmas (War Is Over).

Eftir verðskuldað uppklapp héldu tónleikagestir léttari á sálinni út í myrkrið og rigninguna á þessu síðasta kvöldi nóvembermánaðar.

Fyrri greinÓþekktur sjúkdómur í sunnlensku hrossastóði
Næsta greinKK í Víkurkirkju í kvöld