Jólagjöf frá karlakórnum í Sjóðinn góða

Frá jólastund Karlakórs Selfoss í Selfosskirkju í gærkvöldi. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Það var mögnuð stund þegar Karlakór Selfoss hélt seinni jólatónleika sína fyrir troðfullri Selfosskirkju í gærkvöldi.

Aðgangur að tónleikunum var ókeypis en tekið við frjálsum framlögum sem runnu í Sjóðinn góða. Kórinn hélt tónleika í Skálholti í síðustu viku undir sömu formerkjum og á tónleikunum tveimur söfnuðust 474 þúsund krónur sem kórinn afhenti sjóðnum í dag.

Tónleikagestir í Selfosskirkju gerðu góðan róm að söng kórsins, enda var efnisskráin fjölbreytt, bæði létt og hátíðleg en kvöldið náði hámarki í lokin, þegar kórinn söng Ó helga nótt. Að því loknu héldu tónleikagestir glaðir út í frostkalt desemberkvöldið.

Sjóðurinn góði er samstarfverkefni ýmissa mannúðar- og líknarfélaga, kirkjusókna og félagsþjónustu í Árnessýslu. Hlutverk sjóðsins er að styrkja einstaklinga og fjölskyldur sem standa höllum fæti og eiga ekki fyrir nauðþurftum fyrir jólin og einnig á vormánuðum fyrir fermingar. Hægt er að kynna sér sjóðinn á heimasíðu hans.

Fyrri grein54 sunnlenskar fjölskyldur fá matarúttekt frá Krónunni
Næsta greinLeitað að ökumanni sem ók á barn