Japanskur dagur fyrir alla fjölskylduna

Listasafn Árnesinga heldur áfram að bjóða börnum og fjölskyldum þeirra að eiga saman gæðastundir í safninu með þátttöku í viðburðum og listasmiðjum sem haldnar eru mánaðarlega síðasta sunnudag hvers mánaðar yfir veturinn.

Á einn eða annan hátt tengist viðfangsefnið yfirstandandi sýningum og því verður boðið upp á japanska fjölskyldudagskrá, sunnudaginn 23. febrúar, út frá japönsku ljósmyndasýningunni Tohoku.

Dagskráin hefst kl. 13 með spjalli Gunnellu Þorgeirsdóttur um japanska menningu með áherslu á TOHOKU svæðið í Japan. Spjallið er aðlagað barnafjölskyldum. Að spjalli loknu kl. 14 hefst origamismiðja þar sem Kristín Þóra Guðbjartsdótttir aðstoðar gesti við nokkur einföld og skemmtileg origamibrot. Smiðjunni lýkur kl. 16. Einnig verða Reiko og Tomoko frá japanska sendiráðinu í safninu frá kl. 14-16 og skrifa nöfn gesta og þátttakenda með japanskri letrun á pappírsörk sem gestir fá síðan til eignar.

Börn og aðstandendur þeirra eru hvattir til þess að nýta þetta tækifæri, koma og fræðast um japanska menningu og samfélag og skapa síðan saman í listasmiðjunni. Allt efni er til staðar og þátttaka er ókeypis sem og aðgangur í safnið.

Fyrri greinMeistararnir léku á als oddi
Næsta greinUngur ökumaður í akstursbann