Japanskar blómaskreytingar í Listasafninu

Í tilefni af 35 ára afmæli Leirlistafélags Íslands og 35 ára afmæli Íslensk-japanska félagsins og 70 ára afmæli Hveragerðisbæjar verður efnt til viðburðar í Listasafni Árnesinga laugardaginn 23. apríl kl. 14 – 16.

Að viðburðinum koma japanskir blómaskreytingameistarar og útfæra blómaskreytingar á japanska vísu með blómum frá Hveragerði. Þeir hafa valið sér ker og vasa af sýningu Leirlistafélagsins og útfæra ólíkar skreytingar með blómum og greinum með tilliti til forms, litar og stærðar verkanna.

Blómaskreytingameistararnir eru Yukie Moriyama sem nam ikebana við Ohara skólann og Etsuko Satake sem nam fræðin við Ikenobō skólann, en báðir skólanir eru í Japan. Kristín Ísleifsdóttir, fyrrverandi formaður Íslensk-japanska félagsins og félagi í Leirlistafélaginu, hefur umsjón með viðburðinum og mun ásamt þeim Yukie og Etsuko upplýsa fólk um ikebana.

Keramík og KvíKví er heiti núverandi sýninga í safninu og þær munu standa til og með 1. maí. Einnig Ikebana-verkin eftir því sem blómin leyfa. Safnið er opið fimmtudaga – sunnudaga kl. 12 – 18 og aðgangur ókeypis, líka á IKEBANA viðburðinn.

Fyrri greinJóna Björg og Íris Anna ráðnar í stjórnunarstöður
Næsta greinRagnheiður Björk íþróttamaður ársins