Ítalskur fiðlusnillingur á fyrstu helgi sumartónleika

Sumartónleikar í Skálholti hefjast í þessari viku en fyrstu tónleikarnir fara fram í Oddsstofu í Skálholtsbúðum á þriðjudagskvöldið og hefjast klukkan 20.

Þar mun ítalski fiðlusnillingurinn Marco Fusi flytja verk eftir Ylvu Lund-Bergner, Øyvind Mæland, Axel Rudebeck og Johan Svensson.

Marco Fusi hefur starfað með mörgum af frægustu tónlistarmönnum álfunnar á sviði nútímatónlistar. Hann hefur einnig endurvakið áhuga á viola d‘amore hljóðfærinu og frumflutt fyrir það ný verk.

Um næstu helgi mun Fusi leika stórt hlutverk á tónleikum helgarinnar. Kl. 13 á laugardag mun hann flytja erindið Viola d‘amore á vorum dögum og kl. 14 verða tónleikarnir Bræðingur þar sem Fusi leikur fiðlusóló eftir Pierluigi Billone og frumflytur verk eftir Báru Gísladóttur, Bergrúnu Snæbjörnsdóttur, Halldór Smárason og Þráin Hjálmarsson fyrir viola d’amore og rafhljóð.

Kl. 16 á laugardag frumflytja Fusi og Caput hópurinn Skeyti frá glerskurðarmanninum eftir Atla Ingólfsson. Einnig verður frumflutt ný útgáfa á ​Vana e d’ amore fyrir viola d‘amore og kammerhóp eftir ítalska tónskáldið Carlo Ciceri. Á tónleikunum hljómar einnig verkið Pharos eftir Esaias Järnegard frá Svíþjóð.

Á sunnudag kl. 14 verða síðustu tónleikar helgarinnar, Amore tónar og fleiri framandi hljóð, þar sem Marco Fusi og Caput-hópurinn flytja blandaða efnisskrá og verkin sem frumflutt voru á laugardeginum verða endurtekin.

Fyrri greinMannlaus bátur á Ölfusá
Næsta greinAtli tekur við Hamarsliðinu