Íslenskur kórsöngur í hjarta ítalsks fjalls

Ljósmynd/Jónas Erlendsson

Madonna della Corona, ein óvenjulegasta kirkja Ítalíu, varð vettvangur magnaðrar tónlistarupplifunar þann 27. júlí síðastliðinn. Þar flutti Kammerkór Tónskóla Mýrdalshrepps hátíðlega tónleika, þar sem íslensk tónlist hljómaði við steinveggi kirkjunnar, sem eru byggðir beint inn í klettahlið Monte Baldo-fjallsins.

Alexandra Chernyshova, sópransöngkona og kórstjóri, leiddi flutninginn af öryggi, næmni og tilfinningu. Hún túlkaði einleikinn í Alleluia eftir Mozart af mikilli list og söng einnig í lokalögum tónleikanna, þar sem hún sameinaðist kórnum í hinu sígilda lagi Sigfúsar Einarssonar, Draumalandið.

Áheyrendur fengu innsýn í íslenskan tónlistarheim með aðstoð Jönu Fanneyjar Svavarsdóttur, sem kynnti öll verk tónleikanna á ítölsku. Með góðum skilningi og hlýju náði hún að miðla bæði sögulegu samhengi og tilfinningalegu vægi laganna fyrir þá sem þekktu ekki til íslenskrar tónlistar.

Tónlistarval sem snerti hjörtu
Dagskráin var fjölbreytt og vel samsett – þar komu saman klassísk verk og þjóðlög, andlegir sálmar og ljóðasöngur. Meðal verka sem kórinn flutti voru Heyr, himna smiður, Sofðu unga ástin mín, og Liljan, auk laga eftir Atla Heimi Sveinsson og Braga Valdimar Skúlason. Öll verkin nutu sín afar vel í náttúrulegum hljómburði kirkjunnar.

Hljómur sem nær til sálarinnar
„Madonna della Corona er meira en bygging — hún er upplifun. Kirkjan stendur í um 770 metra hæð yfir dýpri dali Adige-árinnar og er inngeng um göngustíga sem leiða upp brattar fjallshlíðar. Inni í kirkjunni ríkir sérlega tær og hreinn hljómur, þar sem steinarnir sjálfir virðast enduróma tónlistina með virðingu og stillingu,“ segir Alexandra í samtali við sunnlenska.is. „Í þessu rými fékk íslenskur söngur að hljóma á eigin forsendum — án hátalara, án tækni — einungis með krafti mannlegra radda.“

Að sögn Alexöndru var mikil ánægja með tónleikana, sem voru bæði listviðburður og andleg stund.

„Söngurinn skapaði tengingu milli ólíkra heima – Íslands og Ítalíu, fortíðar og nútíðar, náttúru og listar. Allir sem hlýddu fóru þaðan með dýpri tilfinningu fyrir fegurð tónlistarinnar og heilagleika staðarins,“ bætti Alexandra við að lokum.

Ljósmynd/Jónas Erlendsson

 

Fyrri greinVictor Hugo og Vesalingarnir á Kvoslæk
Næsta greinVæri ekki hlaupið út aftur