Íslensku fóstri boðið til Finnlands

Verkið THE DAYS OF THE CHILD PRODIGY ARE OVER eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur, skáld frá Úlfljótsvatni og Rakel McMahon, myndlistarkonu, verður sýnt á föstudaginn í Pluckhouse í Helsinki, einu þekktasta tilraunaleikhúsi Finna.

Sýningin er hluti af Dimanche Rouge, alþjóðlegri gjörningahátíð sem fer fram í þremur löndum, Finnlandi, Frakklandi og Eistlandi um næstu helgi. Hátíðin sameinar listamenn, sýningarstjóra, menningarstofnanir og listamannarekna starfsemi. Þar munu yfir 100 listamenn frá 26 löndum sýna verk sem öll eiga það sammerkt að gera tilraunir með gjörningaformið. Frekari upplýsingar um hátíðina má nálgast hér.

THE DAYS OF THE CHILD PRODIGY ARE OVER er röð gjörninga sem á jaðri tilraunaleikhúss þar sem fléttuð er saman ljóðlist og myndlist í brotakenndri frásögn af undrabarninu Betus og baráttu hans við að að finna tilgang í veröld sem hann er ekki enn fæddur í. Betus tilheyrir nýrri kynslóð undrabarna en hann er einungis á sjöttu viku í móðurkvið þegar hann er farinn að semja sonnettur og senda póstkort til þunglyndrar móður sinnar og vinar sins, dragdrottningarinnar Beethovens.

Verkið hefur áður verið sýnt í Nýlistasafninu í Reykjavík, á Art in Translation í Norræna Húsinu og Gruentaler9 í Berlín en hver flutningur verksins er í samtali við rýmið sem það er sýnt í og getur því staðið sem sjálfstæður gjörningur.

Aðrir listamenn sem hafa komið að vinnslu verksins eru Saga Sigurðardóttir, dansari og danshöfundur, Eva Berger, búninga-og leikmyndahönnuður, Einar Tönsberg, tónlistarmaður, Yair Vardi, gjörningalistamaður og Anat Eisenberg, leikstjóri og danshöfundur.

Fyrri greinBorghildur stórbætti héraðsmetið
Næsta greinFjöldi Selfyssinga í yngri landsliðum