Íslenskar einsöngsperlur og galsafullur lofsöngur

Ljósmynd/Aðsend

Sinfóníuhljómsveit Suðurlands heldur sína fyrstu páskatónleika í Selfosskirkju laugardaginn 8. apríl klukkan 16:00. Einsöngvarar á tónleikunum verða þau Helga Rós Indriðadóttir sópran og Gunnlaugur Bjarnason baritón. Auk þeirra koma þrír kórar fram með hljómsveitinni. Þetta eru Kirkjukór Selfosskirkju, Kammerkór Norðurlands og Skagfirski kammerkórinn. Hljómsveitarstjóri er Guðmundur Óli Gunnarsson.

Á efnisskrá tónleikanna verða íslenskar einsöngsperlur í nýjum hljómsveitarútsetningum. Það er ný nálgun á flutningi þekktra einsöngslaga sem alla jafna eru sungin við hefðbundinn píanóundirleik.

Seinni hluti tónleikanna er helgaður hinu magnaða verki Magnificat eftir breska tónskáldið John Rutter. Verkið er samið fyrir hljómsveit, kór og einsöngvara og sló strax í gegn við frumflutning árið 1990, þrátt fyrir sumum þætti það full galsfengið sem lofsöngur Maríu. Rutter sækir innblástur í þá gleði og kæti sem fylgir Maríuhátíðum í suðlægum löndum og enda finnst honum að íbúum í norðri veiti ekki af slíkum sólskinsstraumum.

Helga Rós Indriðadóttir. Ljósmynd/Aðsend

Helga Rós Indriðadóttir sópransöngkona starfaði um árabil við hið virta óperuhús í Stuttgart í Þýskalandi. Hún hefur komið fram sem einsöngvari víða í Þýskalandi, Ítalíu og Japan bæði á óperusviði og sem óratóríu- og ljóðatúlkandi. Helga Rós hefur stjórnað Skagfirska kammerkórnum frá árinu 2013 og Kvennakórnum Ljósbrá frá árinu 2015.

Gunnlaugur Bjarnason. Ljósmynd/Aðsend

Gunnlaugur Bjarnason baritón hóf söngferil sinn 15 ára gamall í bílskúrsböndum á Selfossi. Stuttu seinna hóf hann söngnám í Tónlistarskóla Árnesinga en flutti sig svo til Reykjavíkur þar sem hann lauk framhaldsprófi í söng frá Menntaskóla í tónlist árið 2020. Núna leggur hann lokahönd á meistaranám í klassískum söng við Konservatoríið í Den Haag í Hollandi.

Sinfóníuhljómsveit Suðurlands var stofnuð árið 2020. Aðalhvatamaður að stofnun hennar var Guðmundur Óli Gunnarsson, sem jafnframt er stjórnandi hljómsveitarinnar og listrænn stjórnandi. Markmið starfseminnar er að starfa með samfélaginu og fyrir samfélagið og auðga með því menningu Suðurlands.

Miðasala er á tix.is en einnig verður hægt að kaupa miða við innganginn.

Fyrri greinSelfoss fær tvo leikmenn að láni
Næsta greinAðstæður ómögulegar til slökkvistarfa