Íslensk tónlist til handa sæfarendum og vegfarendum

Næstu tónleikar á tónlistarhátíðinni Englar og menn í Strandarkirkju verða sunnudaginn 23. júlí kl. 14.

Syngjum selunum nýjan söng er yfirskrift tónleikanna þar sem fram fram koma tenórsöngvarinn Gissur Páll Gissurarson, Pamela De Sensi flautuleikari og Steingrímur Þórhallsson organisti.

Á efnisskránni er ný og gömul íslensk tónlist til handa sæfarendum og vegfarendum Selvogs en einnig munu nokkrir suðrænir tónar heyrast úr smiðju ítalskra tónskálda. Meðal þess sem mun hljóma er tónlist eftir Donizetti, Rossini, Sigvalda Kaldalóns og Schubert, allt frá operuaríum yfir í íslensk sönglög. Einnig verða frumflutt fjögur ný lög eftir Steingrím við ljóð Guðrúnar Valdimarsdóttur sem lést 102 á síðasta ári. Pamela hafði frumkvæði að verkunum þar sem hún dáðist að þessari hressu konu sem þótti svo vænt um ljóðin sín og bjó ekki svo langt frá Strandakirkju.

Aðgangseyrir er kr 3.500 og miðasala er við innganginn.Tónlistarhátíðin er styrkt af Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Tónlistarsjóði kirkjunnar og STEFs og Tónlistarsjóði.

Fyrri greinSuðurlandsvegur lokaður í Flóanum
Næsta greinSátu á kviðnum við Högnhöfða