Íslensk klassík á sólarströnd

Það er afar þjóðleg iðja að sitja heilt kvöld og horfa á Íslendinga á sólarströnd.

Sólbrunnir hálfdrukknir strandgestir eru næstum eins þjóðlegir á því herrans ári 2012 eins og tóvinnufólk í baðstofu var til skamms tíma. Kannski er enginn veruleiki eins sameiginlegur landanum eins og einmitt þessi almennu sólstrandarleiðindi.

En þetta var ekki svo upp úr 1970. Þá voru sólarferðir nær því að vera fágætur munaður, flestir sem fóru voru að fara í fyrsta sinn og yfir ferðalögum þessum var mikill glans. Það er því merkilegt að sjá þetta fertuga leikrit Guðmundar Steinssonar frá Eyrarbakka. Hér teiknar hann hina íslensku sólstrandarferð upp eins nöturlega og frekast er unnt. Hjónin dvelja daglangt á hótelsvölum og súpa Cuba Libre. Á nóttunni leysist samlífi Íslendinganna upp í stóðlífi og herbergjafyllerí með tilheyrandi vandræðagangi.

Hin mædda húsmóðir og ástríðulausa kemst næst því að kynnast spænskri menningu þegar kvensamur og kynþokkafullur þjónn gerir að henni atlögu og kemur fram vilja sínum. Kynlífsatriðin í sýningunni voru vel leikin þó nokkurs tepruskapar hafi gætt þar sem Nína er t.d. kappklædd í sundbol í atriði þar sem nett bikiní hefði betur átt við. En persónan Nína kemur áhorfandum svolítið á óvart þegar hún undir lok verksins gengst við framhjáhaldinu með þjóninum meðan bóndi hennar lætur ekki uppi um sín næturævintýri.

Það liggur beinast við að heimfæra framhjáhald og játningar Nínu upp á hugmyndir hippakynslóðarinnar um kvenfrelsi en um leið verður atriðið umhugsunarvert út frá nútímalegri hugmyndum um samskipti kynjanna. Frá sjónarmiði samtímans liggur við borð að þjónninn nauðgi hinni virðulegu giftu konu. Þegar Guðmundur Steinsson situr við skriftir fyrir fjórum áratugum er það aftur á móti viðtekið að siðprúðar konur eigi að segja nei þegar þær meina já.

Sólarferð Guðmundar Steinssonar á margháttað erindi við okkur, bæði sem þjóðháttaleg pæling um skemmtan og frí margra kynslóða Íslendinga. En líka sem gamanleikrit með alvarlegum undirtón um fals, lygi, tilgangsleysi og hégóma.

Leikfélag Selfoss fer afar vel með stykkið og tekst að gera hin leiðinlegustu atvik sólarlandaferðar að sprenghlægilegum. Það er þannig ákveðið ris í sýningunni þegar tvenn hjón sitja þegjandi á rúmbrík á hóteli og horfa sljóum augum út á spænskan sjó en salurinn tísti af hlátri. Kannski vegna þess hvað allir kannast vel við þetta augnablik erindisleysunnar.

Hér verður ekki farið í að tíunda þátt hvers og eins leikara en þau frændsystkini Guðfinna Gunnarsdóttir og Guðmundur Karl Sigurdórsson bera verkið uppi og búa hér að áratuga reynslu á fjölum litla leikhússins við Sigtún.

Bjarni Harðarson

Leikfélag Selfoss sýnir Sólarferð – Viva España. Höfundur: Guðmundur Steinsson. Leikstjóri: Rúnar Guðbrandsson. Leikarar: Guðfinna Gunnarsdóttir, Guðmundur Karl Sigurdórsson, Íris Árný Magnúsdóttir, Stefán Ólafsson, Baldvin Árnason, F. Elli Hafliðason, Sigrún Sighvatsdóttir og Erla Dan Jónsdóttir. Sýnt í leikhúsinu við Sigtún.