Íslandsást í Ameríku

Saga Íslendinga í Norður-Ameríku verður flutt í máli og myndum í Húsinu á Eyrarbakka í dag kl. 18.

Vestur-Íslendingurinn og ættfræðingurinn Sunna (Olafson) Furstenau frá Norður-Dakota í Bandaríkjunum leggur áherslu á sögu Íslendinga í sínu fylki og hvernig samfélagið þar vinnur að því að varðveita menningararfleiðina. Þekktir Íslendingar þaðan eru Stefán G. Stefánsson, Vilhjálmur Stefánsson, K. N. Júlíus, sr. Páll Þorláksson og sr. Friðrik Bergmann að ógleymdum kaupmannssyninum sr. Hans Baagöe Thorgrímsen sem ólst upp í Húsinu á Eyrarbakka.

Sunna er á hringferð um landið og mun flytja fyrirlestur sinn á tólf stöðum. Fjölskylda hennar kom frá Sauðárkróki, Akureyri og Langanesi á árunum 1882 og síðar. Ásamt fullu starfi sem ættfræðingur er Sunna bandarískur fulltrúi Þjóðræknisfélags Íslendinga, en félagið vinnur að því að efla tengsl við fólk af íslenskum ættum í Norður-Ameríku. Systurfélag Þjóðræknisfélagsins er The Icelandic National League of North America sem Sunna er varaformaður í. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á vefsíðu hennar www.rootstotrees.com

Í Húsinu gefst fólki einstakt tækifæri til að hitta stórfróða manneskju um Íslendinga í Vesturheimi, eitthvað sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Fyrirlesturinn hefst kl. 18 og er á ensku. Aðgangseyrir er enginn og kaffiveitingar í boði Byggðasafns Árnesinga.