Innsýn í hulda heima á bókasafninu

Bókasafn Árborgar hóf vetrarnæturhátíð sína sem gengur undir nafninu Myrkradagar þann 14. október, þá var glugginn opnaður og skreytingarnar tilbúnar í safninu og fyrsti viðburðurinn var bíó-sýningu fyrir börn um góða drauginn Kasper.

Síðasta laugardag þann 23. október var mikið fjölmenni á safninu þegar börn komu í fylgd með foreldrum sínum að búa til falleg eða hrollvekjandi ljósker fyrir hrekkjavökuna. Bestu þakkir öll fyrir skemmtilega sköpunarstund.

Tökum á móti myrkrinu og kuldanum
Það er forn siður að halda hátíðir í vetrarbyrjun til að þakka fyrir uppskeru sumarsins og taka á móti myrkrinu og kuldanum. Vetrarbyrjun sem stundum var kölluð nýár var talin vera um mánaðarmót október nóvember í heiðnum sið.

Í Evrópu var til siðs að setja brennandi kerti í útskornar næpur – sem urðu að graskerjum þegar komið var til Ameríku. Grímubúningar og gotterí eru í nútímanum, einkennandi fyrir þessa miklu hátíð en enn eimir eftir af gamalli trú og trúin var sú að upphaf vetrar væri tími umskipta og þá geta menn skynjað handanheima og spáð í framtíðina, framliðnir fóru á kreik og eitt nafnið á „Allra sálna messu“ er einmitt „Allra dauðra messa“

Innsýn í hulda heima
Næsta laugardag hugsum við um fullorðna fólkið og þá koma til okkar, frá Sálarrannsóknafélagi Íslands, þær systur Esther og Helga Sif Sveinbjarnardætur. Þær ætla að gefa okkur smá innsýn í hina huldu heima og hugsanlega sýnishorn af því hvernig þær ná að tengja sig yfir í víddir sem eru flestum okkur huldar. Þær hafa ýmislegt í sinni verkfærakistu, hafa enda lagt stund á miðilsstörf og kunna að lesa í skrift, Tarot spil, kaffibolla og lófa sem og rúnirnar okkar gömlu.

Við þökkum fyrir sumarið og uppskeruna og bjóðum myrkrið og veturinn velkominn og ljúkum Myrkradögum á að nálgast þessi skil milli heima með þeim systrum laugardaginn 30. október kl. 13:00. Ókeypis aðgangur og allir velkomnir!

Fyrri greinSkemmdarverk á Óskalandi
Næsta greinSmit á sjúkrahúsinu á Selfossi