Innlögn komin út

Út er komin ljóðabókin „Innlögn“ eftir Pétur Önund Andrésson á Selfossi. Bókin skiptist í tvo kafla sem heita „Staðir" og „Náttmál“.

Höfundur hefur á ferðum sínum um landið orðið fyrir áhrifum sem birtast í fyrri hluta bókarinnar. Þar má m.a. finna ljóð sem heita Hafnarhólmi, Síðsumar á Þingvöllum, Í Öræfasveit, Fjallfoss og Hólar svo eitthvað sé nefnt.

Í síðari hluta bókarinnar Náttmálum lítur höfundur nær sjálfum sér og samferðafólkinu. Bókin telur 34 ljóð sem öll taka tilfinningarnar í ferðalag. Kápan er hönnuð af listakonunni Elísabetu Helgu Harðardóttur á Selfossi. Umbrot var í höndum Kára Jósefssonar og bókin er prentuð í Leturprenti. Útgefandi er Hálogaland ehf.

Áður útkomnar ljóðabækur Péturs Önundar eru: Næturfrost (1976), Hlustað á vorið (1978), Skýjað með köflum (1983), Úr rökkri bakvið draum (1990), Yrja (1993) og Ljóðnætur -orðin úr síðasta hali- (2010).

Pétur Önundur er menntaður grunnskólakennari og skólasafnvörður. Hann hefur haft lifibrauð sitt af þeim störfum. Ljóð hans hafa birst í safnritum og á sýningum.

Hann er félagsmaður í Félagi íslenskra rithöfunda. „Ljóðlistin hefur verið hjákona hans frá unglingsaldri. Hún er kröfuharður og agandi förunautur en líka fullnægjandi og yndisleg,“ segir Pétur.

Bókin fæst í bókaverslunum víða um land, meðal annars í Sunnlenska bókakaffinu á Selfossi og hjá höfundi.

Fyrri grein50 km/klst hámarkshraði í Kömbunum
Næsta grein38 sóttu um sveitarstjórastarfið