Ingó fékk Menningarviðurkenningu Árborgar

Ingólfur Þórarinsson, tónlistarmaður, fékk Menningarviðurkenningu Sveitarfélagsins Árborgar 2010 afhenta í kvöld.

Það var Ragnheiður Hergeirsdóttir, bæjarstjóri, sem afhenti Ingólfi viðurkenninguna í upphafi tónleika hans með Jóhönnu Guðrúnu í Hótel Selfossi.

Ragnheiður rakti feril þessa vinsæla tónlistarmanns allt frá unglingahljómsveitinni Óreiðu, til dagsins í dag. Eins og öllum er kunnugt fer Ingólfur fyrir Veðurguðunum, vinsælustu popphljómsveit landsins.

Veðurguðinn var ánægður með sín fyrstu tónlistarverðlaun, eins og hann sagði sjálfur; „Það eru alltaf einhverjir rokkarar sem fá öll verðlaunin þannig að þetta er frábært og mikill heiður fyrir popptónlistarmann.“

Að því loknu töldu Ingó og Jóhanna Guðrún í fyrsta lag með hljómsveit sinni. Fullt er út úr dyrum á tónleikunum.

Það er menningarnefnd sveitarfélagsins sem stendur fyrir valinu en þetta er í áttunda skipti sem þau eru afhent.