Ingileif leikur í Selinu

Ingileif Bryndís Þórsdóttir, píanóleikari, heldur einleikstónleika í Selinu á Stokkalæk í kvöld kl. 20.

Hún mun flytja Partítu nr. 1 í B dúr eftir Johann Sebastian Bach, Portrett nr. 2 eftir Snorra Sigfús Birgisson, etýðuna Un Suspiro eftir Franz Liszt og Kreisleriana eftir Robert Schumann.

Ingileif Bryndís er aðeins 25 ára gömul en frá sjö ára aldri hefur hún lagt stund á nám í píanóleik. Kennarar hennar hafa verið Sigríður Einarsdóttir í Tónmenntaskóla Reykjavíkur og Svana Víkingsdóttir í Tónlistarskólanum í Reykjavík en þaðan lauk Ingileif burtfararprófi vorið 2007.

Frá þeim tíma hefur hún stundað framhaldsnám við Tónlistarháskólann í Freiburg undir handleiðslu Andreas Immer prófessors og við ljóðaundirleik H. P. Müller prófessors sem unnið hefur með heimsþekktum söngvurum á borð við Paul Lohman og Elisabeth Schwarzkopf. Ingileif Bryndís mun halda útskriftartónleika frá skólanum næsta vor.

Miðaverð er kr. 1.000 og verða veitingar á tónleikunum. Miðapantanir eru í síma 4875512 og 8645870.

Fyrri greinHerjólfur kominn yfir 40.000 farþega
Næsta greinNær ófært inn í Þórsmörk