Ingi Bjarni ásamt hljómsveit á Hótel Örk

IB kvintett. Ljósmynd/Aðsend

Píanóleikarinn Ingi Bjarni Skúlason gaf nýverið út kvintett plötu sem ber nafnið Tenging. Plötuna tók hann upp ásamt hæfileikaríku tónlistarfólki sem hann kynntist í Skandinavíu. 

Hljómsveitin fagnar útgáfu plötunnar með tónleikaferðalagi um landið í september sem er styrkt af Tónlistarsjóði og Menningarsjóði FÍH. Síðustu tónleikarnir í röðinni verða haldnir á Hótel Örk í Hveragerði, sunnudaginn 29. september kl. 17:00. Meðal annarra viðkomustaða eru Stykkishólmur, Borgarnes og Vestmannaeyjar.

Leyfði innsæinu að ráða
„Tónlistin á plötunni er samin á síðustu tveimur árum en á þessu tveggja ára tímabili kannaði ég ýmsa þætti hvað varðar tónlist og tónlistarsköpun. Má þar nefna flæði, frelsi, sjálfstraust og innsæi. Við lagasmíðina efldi ég tengingu mína við tónlist og leyfði innsæinu að ráða för í stað þess að stóla á fræðilega tónlistarþekkingu,“ segir Ingi Bjarni. 

Sem fyrr segir hljóðritaði hann plötuna með tónlistarmönnum sem hann kynntist í Skandinavíu en með honum í hljómsveitinni eru gítarleikarinn Merje Kägu frá Eistlandi, Jakob Eri Myhre trompetleikari frá Noregi, kontrabassaleikarinn Daniel Andersson frá Svíþjóð og trommuleikarinn Tore Ljøkelsøy frá Noregi.

„Platan er því jafnframt eins konar tenging mín við Skandinavíu – en ég stundaði mastersnám í Osló, Gautaborg og Kaupmannahöfn. Platan er gefin út af norsku plötuútgáfunni Losen Records sem hefur m.a. gefið út tónlist eftir Anders Jormin, Per Mathisen og Hildegunn Øiseth sem eru þekkt nöfn innan norrænu tónlistarsenunnar,“ bætir Ingi Bjarni við að lokum.

Fyrri greinMörg dæmi um utanvegaakstur eftir snjókomu
Næsta greinVísbendingar um að nýjar tegundir séu að þróast í Þingvallavatni