„Í upphafi fannst mér þetta galin hugmynd“

Þýðendurnir Harpa Rún Kristjánsdóttir og Jón Magnús Arnarsson. Ljósmynd/Aðsend

Nýverið frumsýndi Þjóðleikhúsið leikritið Rómeó og Júlíu í spánýrri þýðingu Hörpu Rúnar Kristjánsdóttur og Jóns Magnúsar Arnarssonar.

Er þetta í fyrsta sinn sem íslensk kona þýðir verk eftir William Shakespeare og er þetta fyrsta þýðingin á þessu rómaða verki í tuttugu ár en síðast sá Hallgrímur Helgason um að íslenska textann árið 2001.

„Haustið 2019 er Þorleifur Örn, leikstjóri verksins, að koma heim frá Þýskalandi eftir að hafa starfað þar sem leikstjóri og leikhússtjóri undanfarin ár. Þar hafði hann sett upp nokkur Shakespeare verk, þar á meðal mjög umtalaða uppfærslu á Rómeó og Júlíu þar sem Júlía neitar að deyja í lokin. Á þýsku eru til ótal þýðingar á þessum verkum og í rauninni talað um að hver kynslóð þurfi að eiga sína þýðingu,“ segir Harpa Rún í samtali við sunnlenska.is.

„Þorleif langaði til að fá nýjar raddir sem hentuðu uppsetningunni sem hann hafði í huga hérna heima. Hann var lengi búinn stinga því að bróður sínum, Jóni Magnúsi, að prófa að þýða Shakespeare. Við Jón höfum lengi verið skrifvinir, skrifast á, lesið yfir og krukkað hvort í annars textum.“

Ljósmynd/Harpa Rún

Þykir vænt um samstarfið
„Jón kemur auðvitað úr slamminu, sem hentar vel í ryþmískan texta auk þess sem fyrsta sviðsverkið hans, Tvískinnungur var þarna nýlega komið af fjölum Borgarleikhússins. Hann er líka menntaður leikari og kemur því með sviðsreynsluna inn í þetta. Ég hafði meira verið í pappírnum, var nýbúin að klára MA námið, gefa út fræðigrein og auðvitað ljóðabókina Eddu. Þorleifur stakk uppá að við myndum leiða saman ólíkar raddir og reynsluheima og gera atlögu að þessu. Við þýddum upphafsljóðið og svalasenuna frægu og sendum inn sem prufu, sem féll í kramið, og hér erum við í dag,“ segir Harpa Rún.

Harpa Rún segir að vel hafi gengið að þýða verkið. „Eftir á að hyggja vorum við ekkert sérstaklega lengi að þýða. Ég vil vinna jafnt og þétt meðan Jón er meiri skorpumaður og þannig var þetta nokkuð fljótt að gerast. Við tókum svo eina góða helgi í Gullkistunni á Laugarvatni til þess að fínpússa í september í fyrra. Hins vegar tók tímann sinn að verkið kæmist á svið – en það var ekki okkur að kenna!“

Aðspurð hvernig samstarfið hafi gengið segir Harpa Rún að þau Jón séu að minnsta kosti enn vinir. „Það var í rauninni bara tímaspursmál hvenær við myndum gera eitthvað svona saman, eftir að hafa setið hvort á annars öxl í skrifævintýrum gegnum tíðina. Þetta var öðruvísi og tók vissulega meira á, en mér þykir afskaplega vænt um þetta samstarf og er stolt af því að hafa gert þetta með honum.“

Sigurbjartur Sturla Atlason og Ebba Katrín Finnsdóttir fara með hlutverk Rómeó og Júlíu. Ljósmynd/Þjóðleikhúsið

Lykillinn að nálgast frumtextann á eigin forsendum
Þetta er í fjórða sinn sem leikritið um Rómeó og Júlíu er þýtt yfir á íslensku en upphaflega þýddi Matthías Jochumsson verkið, síðar Helgi Hálfdanarson og svo Hallgrímur Helgason.

„Ég væri að ljúga ef ég segðist vita hvort það væru miklar breytingar frá fyrri þýðingum! Við lásum þær allar í upphafi, og þær eru allar frábærar, en síðan fannst mér mikilvægt að reyna að fjarlægjast þær. Það er auðvelt að festast í því að Helgi hafi sagt allt betur, Hallgrímur verið fyndnari, Matthías frjórri og svo framvegis en það er ekki holl leið til að vinna. Lykillinn var að nálgast frumtextann á eigin forsendum, ekki vera að reyna að gera eitthvað öðruvísi en hinir þýðendurnir, heldur gera þetta að okkar.“

„Undirtónninn varð samt strax nokkuð femínískur. Í samræðum við Þorleif var frá upphafi mikið rætt um stöðu Júlíu, baráttu hennar gegn bókstaflegu feðraveldinu og vonlausri stöðu hennar gagnvart samfélaginu og ástinni. Það litaði sérstaklega hennar rödd og föður hennar, hr. Kapúlett. Við vorum allan tímann meira að hugsa um að skila tilfinningu heldur en bragfræðireglum. Það er vissulega rím, en það er meira hugsað til áhersluauka og blæbrigða heldur en að við séum að eltast við sexliðuformið, þannig séð.“

Ljósmynd/Þjóðleikhúsið

Leikverkin þróast með fólkinu
„Ég hafði smá grunn í enskri endurreisnarleikritun síðan í háskólanum þar sem við lásum Marlowe, Jonson og fleiri. Í dag hættir okkur til að hefja þessa texta upp til skýjanna sem einhverskonar bókmenntalega hámenningu, en þetta voru fyrst og fremst leikskáld fólksins. Endurreisnarleikhúsin voru samkomustaðir þar sem leikarar þurftu að hrópa og ríma til þess að yfirgnæfa gestina sem voru alveg eins komnir til að detta í það og klæmast eins og að njóta leiklistar. Verkin á sviðinu þurftu þess vegna að vera sterk og bera í sér einhverskonar sammannlegan og tæran tón sem fólk tengdi við, til þess að það héldi athyglinni. Það var það sem ég lagði upp með að skila í textanum. Eitthvað mannlegt sem fólk tengir við,“ segir Harpa Rún.

Það er eðlilega sérstök tilfinning að þýða Shakespeare. „Í upphafi fannst mér þetta galin hugmynd, en síðan rann upp fyrir mér að það væri alveg jafn galið að engin kona hefði spreytt sig á eins femínískum texta og Rómeó og Júlía er. Það var fyrst og fremst skemmtilegt fyrir mig sem skáld að fá að máta svona allt aðra skó. Svo eru galnar hugmyndir gjarnan bestar,“ segir Harpa Rún og bætir því við að eftir þetta ævintýri loki hún ekki á frekari leikritaþýðingar.

Fyrsta skáldsagan og fyrsta barnið
Það er nóg að gera hjá rithöfundinum, þýðandanum og nýlega móðurinni Hörpu Rún. „Það er auðvitað að renna upp einn af mínum uppáhalds árstímum, framundan eru réttir og smalamennskur, sveppatíð, sláturtíð og almenn vetrarforðaöflun. Síðan ætla ég í jólabókaflóðið, en fyrsta skáldsagan mín, Kynslóð kemur út í október. Þetta haust verður öðruvísi þar sem ég þarf að fara minna ferða með barnavagn á undan mér, sem er sannarlega stærsta og mest spennandi verkefnið til þessa,“ segir Harpa Rún að lokum.

Fyrri greinHægist á vexti hlaupsins
Næsta greinHamar situr eftir annað árið í röð