„Í þessum bransa gildir almennt að segja bara já og finna svo út úr því“

Sigríður Sigurðardóttir, tréútskurðarkona. Myndin var tekin þegar hún var í fríi heima á Íslandi í sumar. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Selfyssingurinn Sigríður Sigurðardóttir hefur verið búsett í London um fimmtán ára skeið þar sem hún vinnur við tréútskurð.

Við erum ekki að tala um einhverja trékarla eins og Emil í Kattholti tálgaði heldur margskonar listaverk en Sigríður hefur verið að skera út risastórar margarma ljósakrónur fyrir kirkjur, dreka, apa, hunda og önnur dýr, handriðspósta og blómasamsetningar – svo fátt eitt sé nefnt. Fyrir venjulegt fólk, sem þarf að passa sig við að skera sig ekki í fingurna þegar það saxar niður súkkulaðið fyrir lakkrístoppana, er ekki annað hægt en að gapa af undrun þegar það sér verkin hennar.

Þess má geta að blaðamaður sunnlenska.is fékk fyrst ábendingu um þessi fallegu verk Sigríðar snemma á þessu ári en það var hægara sagt en gert að ná tali af henni þar sem hún er einstaklega upptekin manneskja. Og ekki hjálpaði það heldur til að Sigríður er búsett í Bretlandi. Sjö mánuðum eftir að við ræddum fyrst um að skrifa um starf hennar og fallegu munina sem hún hefur verið að skera út, bárust loksins svör frá þessari hógværu konu sem starfaði lengi sem leigubílstjóri þegar hún var búsett á Selfossi.

„Aðdragandann að flutningum mínum til London má rekja til bjartsýninnar sem ég andaði að mér 2007 og sjálfstraustinu sem fylgir því að vera ungur og með endalausa valmöguleika. Eftir stúdentspróf frá Fjölbrautaskóla Suðurlands 2005 prófaði ég mig áfram, harkaði á leigubílnum, fór í spænskuskóla og Hússtjórnarskólann á Hallormsstað en þar uppgötvaði ég ákveðna ró sem ég upplifi enn þegar ég vinn með höndunum,“ segir Sigríður í samtali við sunnlenska.is.

Sigríður á vinnustofu sinni ásamt syni sínum, Birni Aldar. Ljósmynd/Aðsend

Fann neista í tréútskurði
Í framhaldinu fór Sigríður í eins árs fornám í Myndlistaskólanum í Reykjavík. „Ég fann mig ekki í nútímalegri listagreinunum en sótti kvöldnámskeið í tréskurði hjá Jóni Adólf, þar sem ég fann einhvern neista. Ég kom svo við í hannyrðaskóla í Danmörku og silfursmíði í Iðnskólanum í Reykjavík en fannst viðurinn hafa meiri möguleika og skemmtilegra hráefni. Haustið 2008 fór ég svo í þriggja ára diplómanám í Historic Woodcarving and Gilding í London.“

Sigríður lærði í litlum listaháskóla í Kennington er nefnist City and Guilds of London Art School. „Þar er hægt að læra forvörslu, steinhögg og útskurð ásamt skúlptúr og list. Þar kynntist ég líka manninum mínum en hann var að kenna þar,“ segir Sigríður en maðurinn hennar heitir Robert Randall og eiga þau saman tvö börn.

Sigríður segist ekki gera neitt sérstaklega upp á milli viðartegunda þegar kemur að því að skera út. „Það er mest notaður lindiviður í útskurð, en eik, hnota, fura og ýmis annar viður virkar vel. Það fer yfirleitt eftir því hvernig liggur í viðnum sjálfum og verkinu sem þarf að vinna en það er líka svo skemmtilegt við viðinn að maður þarf að vinna með honum, því einu sinni voru þetta lifandi tré.“

Ljósmynd/Aðsend

Allt reynt að varðveita
Sigríður segir að í London sé rík saga og mikil hefð fyrir útskornum innréttingum í kirkjum, klúbbhúsum, samkvæmissölum og fleiri byggingum. „Það er reynt að varðveita allt eftir fremsta megni. Við höfum verið að vinna verkefni í þinginu í Westminster Hall, The Painted Hall í Greenwich, Cartier, Libertys, Fortnum and Masons, fjöldamörgum kirkjum í London og nýjum spítala í Brighton til dæmis,“ segir Sigríður sem hefur verið dugleg að deila myndum af verkum sínum á Facebook-síðu sinni og eiga verkin það sameiginlegt að vera stórglæsileg og unnin af mikilli nákvæmni.

Mikil áhersla er lögð á varðveislu í Bretlandi. Hluti af viðgerðum á stiga í Sherborne House í Dorset. Ljósmynd/Aðsend

Sigríður hefur meira en nóg að gera við að skera út listaverk úr viði. „Í þessum bransa gildir almennt að segja bara já og finna svo út úr því. Það er alltaf nóg að gera, fyrirtæki mannsins míns er komið með mjög góðar tengingar, þekkingu og reynslu. Yfirleitt erum við með stærri verkefni þar sem þarf að fara á staðinn í sértækar viðgerðir þar sem reynt er að varðveita grunninn. Og með því eru svo minni verkefni sem hægt er að gera á verkstæðinu okkar, eins og að smíða húsgögn, viðgerðir á minni hlutum, skera út letur, skera út hluti og skúlptúra, gyllingar á römmum og fleira.“

Skar út Stóra dana hund á átta dögum
Verkefni Sigríðar eru æði fjölbreytt. „Dagsdaglega vinn ég við tréskurð. Síðastliðin ár hef ég tekið þátt í að skera út rómverskan dreng fyrir kirkju í St. Pancras, risastóran dreka fyrir kínverskt hof í Kew Gardens og gyllta útskorna ljósakrónu fyrir Fulham Palace. Minni verkefni hafa til dæmis verið leikmunir fyrir leikhús, lítill hrútur og eikarhneta, sitjandi hundar sem handriðspóstar, ljónsfætur, brauðbretti með útskornum stöfum og allskonar minni viðgerðir.“

Þegar fólk sér myndir af verkum Sigríðar þá hugsar það eðlilega að það hafi tekið hana marga mánuði að skera þau út en svo er ekki – enda þaulvön útskurðarkona.

„Tímarammi hvers verks er misjafn, eins og flestir þekkja þá er maður duglegri þegar skiladagsetning nálgast. Ég skar út sitjandi Stóra dana hund á átta dögum og tvo blómahandriðspósta á ellefu dögum.“

Stóri dani sem Sigríður skar út á átta dögum. Ljósmynd/Aðsend
Dreki sem Sigríður skar listilega út. Ljósmynd/Aðsend

Stofnaði íslenskuskóla
Ein ástæðan fyrir því að það gekk illa að fá Sigríði í viðtal var hún stóð í miklum endurbótum á húsinu sínu allt þetta ár. Í Bretlandi tíðkast það heldur ekki að börn fari á leikskóla átján mánaða eins og á Íslandi, svo að Sigríður hefur verið heima með yngra barnið sitt þar til nýlega.

„Við fluttum í okkar eigið hús fyrr á þessu ári og höfum verið að gera það upp en í því eru engin rétt horn. Við eigum Freyju Björk 8 ára og Björn Aldar 3 ára, sem byrjar loksins að fara daglega á leikskóla í janúar,“ segir Sigríður og bætir því við að leikskólagjöld í Bretlandi séu efni í annað viðtal.

Sigríður heldur fast í íslensku ræturnar þrátt fyrir að hafa verið búsett í London í 15 ár. „Ég stofnaði líka íslenskuskóla ásamt nokkrum öðrum foreldrum hér í London fyrir nokkrum árum, og svo syng ég með íslenska kórnum í London og er formaður Félags Íslendinga í London. Við héldum íslenskt jólaball á dögunum svo hér er nóg um að vera,“ segir Sigríður að lokum.

Vefsíða fyrirtækisins er www.sandsandrandall.com. Þeir sem hafa áhuga á að fá Sigríði í verkefni geta sett sig í samband við hana á Facebook eða fundið hana á ja.is undir nafninu Sigríður Sigurðardóttir tréskurðarkona.

 

Ljósmynd/Aðsend
Handriðspóstar fyrir The Groucho Club í Soho. Ljósmynd/Aðsend
Sigríður gyllir áherslur á útskorinn ramma úr Fishmongers Hall hjá London Bridge. Ljósmynd/Aðsend
„Stytta sem við hönnuðum, skárum út og máluðum fyrir St Pancras Old Church 2022. Saint Pancras er dýrðlingur barna og hann heldur á kirkjunni“. Ljósmynd/Aðsend
Hluti af skúlptúrum sem unnir voru fyrir fyrir brasilíska listamanninn Tonico. Ljósmynd/Aðsend
Sigríður skar út nokkrar setningar á latínu, í bakið á kirkjubekk sem þau smíðuðu síðastliðið sumar. Ljósmynd/Aðsend
Sigríður við vinnu sína í St. Mary’s kirkjunni á Bourne Street. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinGísli á Uppsölum var eftirminnilegur
Næsta greinHenti hangikjötinu út um gluggann