„Hversdagslegustu augnablik geta verið þau dýrmætustu“

Halla Ósk Heiðmarsdóttir með nýju bókina.

Í þessari viku kemur út bókin „Ár eftir ár – Minningalaupur“ eftir Höllu Ósk Heiðmarsdóttur á Selfossi.

Ár eftir ár er minningalaupur. Hver síða er einn dagur úr ári, en síðan er ekki helguð einu ákveðnu ártali heldur getur maður skrifað stuttar minningar ár eftir ár á hverja síðu og þannig safnað saman minningum í sömu bókina og borið saman dagana eftir því sem árin líða,“ segir Halla Ósk í samtali við sunnlenska.is.

Mikilvægt að skrifa niður minningarnar
„Ég fann það sterkt eftir að ég átti dóttur mína 2015 hvað hvert augnablik er dýrmætt og hversu hratt fennir yfir það liðna, jafnvel þótt manni finnist að maður muni aldrei gleyma því. Þannig að ég fór að leita að bók sem ég gæti nýtt ár eftir ár og þannig rifjað upp hvað gerðist á þessum degi fyrir ári síðar, tveim eða jafnvel tíu,“ segir Halla Ósk.

Að sögn Höllu Óskar segist hún ekki hafa fundið neina bók sem hentaði og ákvað því að búa til sína eigin. „Þegar maður skrifar inn minningu dagsins í dag og lítur yfir liðin augnablik á sama degi sér maður minningarnar í nýju ljósi og lærir að meta betur stundina hér og nú sem er mjög þarft, sérstaklega núna í hraða nútímans.“

Halla Ósk útskrifaðist síðastliðið vor sem leiðbeinandi í þerapíunni Lærðu að elska þig. „Ég hef brennandi áhuga á sjálfsrækt og sköpun auk þess sem ég er áhugaljósmyndari og nýt þess mjög að fanga augnablikin gegnum linsuna.“

Öll augnablik eru mikilvæg
Halla Ósk segir Ár eftir ár vera bók fyrir alla. „Við upplifum öll augnablik og viljum öll eiga minningar sama á hvaða aldri við erum eða hvaða áhugamál við höfum. Hvort sem við erum tvítugur handboltastrákur sem vill muna eftir mörkunum sínum í leikjum, þrítug mamma sem vill fanga augnablik og afrek barnsins, fertugur einhleypur maður sem nýtur þess að sækja viðburði og leiksýningar eða fimmtug kona sem hleypur maraþon og prjónar. Hvort sem það eru augnablik úr hversdagsleikanum eða stærri viðburðir – öll augnablik eru mikilvæg og hversdagslegustu augnablik geta verið þau dýrmætustu þegar maður horfir til baka.“

„Þú getur byrjað að nota bókina frá deginum í dag eða farið aftur í tímann – rifjað upp jafnvel minningar frá því að þú varst yngri eða jafnvel þegar langamma þín fæddist. Þeir sem vilja skissa, yrkja eða skapa geta nýtt hana til þess – eins þeir sem vilja setja inn gullkorn, hugsanir eða þakklæti. Svo er hægt að sleppa úr árum – bara nákvæmlega eins og hverjum og einum hentar,“ segir Halla Ósk en það er bókaútgáfan Sæmundur sem gefur út bókina.

Þriggja ára meðganga
Aðspurð segir Halla Ósk að hún hafði lengi hugsað um að gera bók eins og þessa. „Ég hef verið með hana í maganum í þrjú ár og velt fyrir mér hvernig útfærslan á henni eigi að vera, svo notagildi hennar sé sem best og hún nýtist fyrir sem flesta,“ segir Halla Ósk en þetta er fyrsta bókin sem hún gefur út. Þess má geta að Halla Ósk hefur verið að hanna kort sem hafa vakið þónokkra lukku en þau hafa verið til sölu í Bókakaffinu á Selfossi.

„Fimmtudaginn 13. desember verður útgáfuteiti í Bókakaffinu, Selfossi – rautt, hvítt og jólaglögg í boði, söngatriði og notaleg stemmning. Allir velkomnir. Bókin verður seld í Pennanum Eymundsson um land allt og auðvitað í Bókakaffinu á Selfossi. Hún kemur í búðir í þessari viku og er á sérstöku forsöluverði núna þar sem tvö stafakort eftir mig fylgja með. Hægt er að panta hana í gegnum hosk@hosk.is eða gegnum Facebook-síðu bókarinnar,“ segir Halla Ósk að lokum.

Fyrri grein300 viðskiptavinir tilnefndu styrkþega
Næsta greinJólasveinarnir koma á Selfossi