Hveragerði fyrr og nú

Í maí var opnuð ljósmyndasýning Sigurbjörns Bjarnasonar, Bjössa í Bláfelli, „Hveragerði fyrr og nú“ í Bókasafninu í Hveragerði.

Á sýningunni eru ljósmyndir af ýmsu tagi frá um 1940 eða svo og fram á daginn í dag, bæði myndir sem Bjössi hefur tekið sjálfur og einnig myndir sem honum hafa áskotnast.

Þarna er um að ræða gamlar og nýjar eða nýlegar myndir sem teknar eru á sama eða svipuðum stað, myndir af eldri Hvergerðingum sem nú eru flestir látnir og sitt af hverju tagi fleira. Flestar myndirnar voru áður á sýningu í skúrnum í Bláfelli á Blómstrandi dögum í fyrra. Þá komust færri að en vildu til að skoða, svo nú gefst fólki tækifæri til að skoða myndirnar í ró og næði og velta vöngum, spá og spekúlera og gjarna segja frá eða skrifa niður eitthvað sem tengist myndunum.

Sigurbjörn er fæddur í Hveragerði 1955 og hefur búið í Bláfelli alla sína tíð. Hann starfar hjá Dvalarheimilinum Ási. Hann er áhugaljósmyndari og hefur sinnt því áhugamáli í mörg ár. Hann hefur einnig safnað að sér gömlum ljósmyndum af Hveragerði sem eru góðar heimildir um sögu bæjarins.

Sýningin stendur til 28. júní.

Fyrri greinEkki auðvelt að deila húsi með öðrum
Næsta greinBjargráðasjóður bætir ekki tjón á vegi