Hveragerði fyrr og nú

Í maí var opnuð ljósmyndasýning Sigurbjörns Bjarnasonar, Bjössa í Bláfelli, „Hveragerði fyrr og nú“ í Bókasafninu í Hveragerði.

Á sýningunni eru ljósmyndir af ýmsu tagi frá um 1940 eða svo og fram á daginn í dag, bæði myndir sem Bjössi hefur tekið sjálfur og einnig myndir sem honum hafa áskotnast.

Þarna er um að ræða gamlar og nýjar eða nýlegar myndir sem teknar eru á sama eða svipuðum stað, myndir af eldri Hvergerðingum sem nú eru flestir látnir og sitt af hverju tagi fleira. Flestar myndirnar voru áður á sýningu í skúrnum í Bláfelli á Blómstrandi dögum í fyrra. Þá komust færri að en vildu til að skoða, svo nú gefst fólki tækifæri til að skoða myndirnar í ró og næði og velta vöngum, spá og spekúlera og gjarna segja frá eða skrifa niður eitthvað sem tengist myndunum.

Sigurbjörn er fæddur í Hveragerði 1955 og hefur búið í Bláfelli alla sína tíð. Hann starfar hjá Dvalarheimilinum Ási. Hann er áhugaljósmyndari og hefur sinnt því áhugamáli í mörg ár. Hann hefur einnig safnað að sér gömlum ljósmyndum af Hveragerði sem eru góðar heimildir um sögu bæjarins.

Sýningin stendur til 28. júní.