Listsköpun er góð fyrir sálina

Ljósmynd/Aðsend

Myndlistarfélag Árnessýslu hélt vel heppnað örnámskeið síðastliðið miðvikudagskvöld en þar kenndi Kristjana Gunnarsdóttir, myndlistarkennari, blandaða tækni í myndsköpun og fengu þátttakendur í kjölfarið að spreyta sig sjálfir með ýmis konar efnivið.

Má þar t.d. nefna akrílmálningu, vatnsliti, kol, tréliti, vax og blek og síðast en ekki síst bráðnauðsynlegu tóli fyrir listamenn – hárblásara!

Ekki mátti annað sjá og heyra á þátttakendum en að þeir væru hæstánægðir með námskeiðið og heyra mátti spjallað um það á vinnuborðum hversu róandi svona listsköpun væri og góð fyrir sálina. Eins er vert nefna að stjórn MFÁ var hæstánægð með þátttökuna og notalega samveru á þessum fyrsta viðburði sem félagið stendur fyrir í Menningarmánuðinum október þetta árið.

Markið er nefnilega sett hátt í mánuðinum og var námskeiðið aðeins fyrsti viðburður af nokkrum sem félagið ætlar að standa fyrir, en framundan er sýning á vatnslitaverkum í Sundhöll Selfoss, annað örnámskeið og opið hús á vinnustofunni í Sandvíkursetri í tengslum við menningargönguna þann 14. október. Ef allt gengur að óskum verður svo formleg opnun á Gallerý Gangi og heimasíðu félagsins í mánuðinum.

Það er því margt spennandi á dagskrá hjá félaginu áfram og vert að fylgjast með starfinu á samfélagsmiðlum!

Nokkrar myndir frá örnámskeiðinu má sjá hér að neðan.

Fyrri greinStúlkan er fundin
Næsta greinBörnin í skýjunum með stórglæsilegt útisvæði